Fjármálaráðuneytið ráðið fjóra innlenda aðila að gegna hlutverki söluaðila í fyrirhuguðu útboði á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Þeir eru Arctica Finance hf., Arion banki hf., Kvika banki hf. og Landsbankinn hf.
„Ráðning söluaðilanna er hluti af undirbúningsvinnu vegna fyrirhugaðs útboðs, sem nú er langt á leið komin,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Ráðuneytið tilkynnti fyrir helgi að það hefði gengið til samninga við fjóra erlenda aðila til að sinna sölu hlutabréfa í hinu fyrirhugaða útboði; Arctic Securities AS, JP Morgan SE, UBS Europe SE, og ABN AMRO Bank N.V. (í samstarfi við ODDO BHF SCA).
Ráðuneytið benti á að söluaðilarnir þurfi að gangast undir fyrirkomulag útboðsins og fá söluþóknun sem nemur 0,75% af verðmæti þeirra hluta sem viðkomandi söluaðili selur.
Umsjónaraðilar útboðsins verða eins og áður hefur verið tilkynnt Barclays Bank Ireland PLC, Citigroup Global Markets Europe AG og Kvika banki hf. sem jafnframt verða söluaðilar ásamt því að annast skipulagningu og yfirumsjón útboðsins auk utanumhalds tilboðsbóka.
Alþingi samþykkti fyrir helgi breytingar á lögum um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka hf.