Íslenska kvikmyndaframleiðslufyrirtækið Polarama hyggst setja vefkerfið Northernes Network (NN) í loftið í nóvember á þessu ári. Vefkerfið á að gera kvikmyndaframleiðslu umhverfisvænni, hagkvæmari, skilvirkari ásamt því að auka gagnsæi að því er kemur fram í fréttatilkynningu.
Spakur Finance, sem Helga Viðarsdóttir og Jökull Jóhannsson stýra, hefur séð um fjármögnun á verkefninu. Upplifunarfyrirtækið Sena og Dagur Jónsson, sem rekur ferðaþjónustufyrirtækið Iceland Personal Tours, komu nýlega inn í hluthafahóp Polarama.
Fyrirtækið segir að NN sé fyrst og fremst gagnlegt til þess að velja staðsetningu fyrir upptöku á efni ásamt því að vera markaðstorg fyrir birgja sem bjóða þjónustu sína í kvikmyndaframleiðslu, svo sem ljósmyndara, gistihús, bílaleigur, bílstjóra eða búningahönnuði. Polarama telur að kerfið muni gefa svæðum eins og Vestfjörðum og Austurlandi meira vægi við val á staðsetningum fyrir upptöku á efni.
„Það má líkja NN við airbnb þar sem þú leigir íbúðina þína á markaðstorgi og færð greitt í gegnum vefkerfið. Vefkerfið tryggir greiðslur og að staðið sé við samninga og vottar þá sem hyggjast veita þjónustu í kerfinu.“
Í tilkynningunni frá Spaki segir að um mjög arðbæran geira sé að ræða. „Ávöxtunarkrafan á svona verkefni er há þar sem um nýjung er að ræða, en ef hógværar áætlanir ganga eftir verður ROI 41,55%.“
Polarama er stofnað af Kiddu Rokk Þórisdóttur og Steinarri Loga Nesheim sem hafa bæði yfir tuttugu ára reynslu í greininni. Meðeigandi þeirra Guðmundur Stefán Þorvaldsson leiðir þróun Northerners Network en hann býr yfir 17 ára reynslu í hugbúnaðargerð og var áður tæknistjóri Hugsmiðjunnar. Salvar Þór Sigurðarson starfar sem upplifunarhönnuður (e. UX/UI designer) og Alan Tómasson, sem vann áður sem útlitshönnuður hjá CCP, er efnishönnuður NN kerfisins.