Heimsendingaþjónustan Wolt er nú komin í samstarf við kynlífstækjaverslunina Blush en samstarf fyrirtækjanna gerir viðskiptavinum Blush kleift að fá kynlífstæki og aðrar unaðsvörur sendar heim að dyrum.
Í tilkynningu segir að viðskiptavinir geti skoðað kynlífstæki og aðrar unaðsvörur inni á Wolt-appinu og fengið vörurnar sendar til sín á innan við 30 mínútum.
„Við erum ótrúlega spennt að geta fært viðskiptavinum okkar vörur, hratt og örugglega. Samstarfið með Wolt snýst um aukið aðgengi að okkar vörum. Við sjáum strax mikla eftirspurn og höfum þegar afgreitt fyrstu 69 pantanirnar,“ segir Gerður Huld Arinbjarnardóttir, framkvæmdastjóri Blush.
Þá segir að pöntunarferlið sé einfalt og meðhöndlað af varfærni og þagmælsku, hvort sem viðskiptavinir vilji fá vöruna senda heim til sín eða á skrifstofuna.
„Samstarfið með Blush er nýr og spennandi kafli hjá okkur hjá Wolt á Íslandi. Það hefur verið frábært hingað til að afhenda mat, en að afhenda unaðsvörur er glænýtt þjónustustig og við erum alsæl með að geta gert þennan vöruflokk aðgengilegan á appinu okkar,“ segir Jóhann Már Helgason, forstöðumaður viðskiptastýringar hjá Wolt á Íslandi.