Visteyri er vistvænt markaðstorg á netinu þar sem hægt er að kaupa og selja notaðar vörur á einfaldan og öruggan hátt. Sigrún Dís Hauksdóttir, einn eigendanna, segir markmið þeirra að stuðla að hringrásarhagkerfi þar sem allir geta tekið þátt.

Visteyri er vistvænt markaðstorg á netinu þar sem hægt er að kaupa og selja notaðar vörur á einfaldan og öruggan hátt. Sigrún Dís Hauksdóttir, einn eigendanna, segir markmið þeirra að stuðla að hringrásarhagkerfi þar sem allir geta tekið þátt.

„Vefverslunin er ársgömul og það má segja að lagerinn okkar sé um allt land því aðilarnir sem eru að selja og senda eru einstaklingar en ekki fyrirtæki. Það skiptir okkur miklu máli að allir geti keypt og selt notuð föt á Visteyri óháð staðsetningu. Við erum fyrsta markaðstorgið á Íslandi sem býður upp á sendingu um allt land.

Við þurftum að útfæra ýmis atriði okkar megin til að sendingar sem eiga að berast með Póstinum myndu tengjast við pantanir úr okkar kerfi. Þau voru mjög liðleg þegar kom að því að innleiða breytingar hjá sér svo dæmið myndi ganga upp. Við erum mjög þakklát fyrir það,“ segir Sigrún.

Seljendur á Visteyri hafa val um hvort þeir vilji leyfa kaupendum að sækja vöruna til sín eða fá hana senda en flestir nýta póstþjónustuna.

„Svo hafa póstboxin hringinn í kringum landið reynst okkur vel því þau eru alltaf opin, bæði fyrir þau sem eru að senda og sækja pakka.“

Visteyri gerir einstaklingum kleift að ganga frá sölu og kaupum á notuðum munum í vefverslun.

„Við mörkuðum okkur strax ákveðna sérstöðu með því að bjóða viðskiptavinum upp á að senda með Póstinum. Það hentar sumum betur að þurfa ekki að mæla sér mót og láta bara Póstinn um að afhenda flíkina. Þá er líka hægt að senda og sækja hvenær sem fólki hentar.

Við höfum með þessu opnað á hringrásarviðskipti um allt land. Síðastliðið ár hefur einkennst af miklum vexti, notendum fjölgar stöðugt og vöruúrvalið hefur aukist til muna. Við mælum með að allir kíki á úrvalið, það hefur aldrei verið auðveldara að kaupa og selja notað,“ segir Sigrún ennfremur.