Stjórnir Arion banka og Kviku banka eru í störukeppni um þessar mundir um hvor muni eiga frumkvæði að því að lýsa yfir áhuga á samrunaviðræðum. Líklegra þykir að stjórn Arion banka muni að lokum líta undan og senda stjórn Kviku banka bréf þar sem lýst verður yfir áhuga á samrunaviðræðum, að því er heimildir Viðskiptablaðsins herma.
Um miðjan febrúar sendi stjórn Arion banka stjórn Íslandsbanka bréf, þar sem lýst var yfir áhuga á að hefja viðræður um samruna bankanna. Bréfið vakti mikla athygli og sitt sýndist hverjum um hvort Samkeppniseftirlitið myndi heimila samruna bankanna eður ei. Aftur á móti afþakkaði stjórn Íslandsbanka það boð og reyndi því aldrei á hvort samruninn fengi blessun eftirlitsaðila.
Stoðir stærsti einkafjárfestir beggja banka
Í september greindi Viðskiptablaðið frá því að vangaveltur um mögulegar samrunaviðræður Arion banka og Kviku banka hafi fengið byr undir báða vængi. Var meðal annars bent á að fjárfestingarfélagið Stoðir væru stærsti einkafjárfestirinn í báðum bönkum.
Jóni Sigurðssyni, forstjóri Stoða, hefur verið tíðrætt um það í bréfum til hluthafa fjárfestingarfélagsins að tækifæri væru til aukinnar hagræðingar á fjármálamarkaði. Þungt regluverk og aukin erlend samkeppni kalli á meiri stærðarhagkvæmni. Þá lýsti hann yfir vonbrigðum með að samrunaviðræðum Íslandsbanka og Kviku hafi verið slitið.
Uppsagnir og hagræðing
Líkt og gefur að skilja slökkti bréf stjórnar Arion banka til stjórnar Íslandsbanka í orðrómum um samruna Arion og Kviku. Eins og fyrr segir herma heimildir Viðskiptablaðsins að líkurnar á samrunaviðræðum bankanna hafi nú aukist á ný.
Fyrir utan augljósa samlegð af samruna bankanna hefur verið bent á að bæði Kvika banki og Arion banki hafi ráðist í töluverðar hagræðingaraðgerðir á undanförum árum. Um síðustu áramót störfuðu sem dæmi um 820 manns hjá Arion banka samstæðunni og hafði þeim þá fækkað um 40 frá því ári áður. Hjá Kviku banka störfuðu um 250 um síðustu áramót og hafði þeim fækkað um u.þ.b. 30 frá því ári áður.
Nýleg sala Kviku á tryggingafélaginu TM til Landsbankans ætti að liðka fyrir mögulegum samruna en undir hatti Arion banka er tryggingafélagið Vörður.
Aðalfundur Kviku banka var haldinn fyrr í þessari viku en aðalfundur Arion banka fór fram tveimur vikum fyrr. Má því ætla að nú sé ágætis tímapunktur fyrir stjórnirnar til að hefja samrunaviðræður.