Uber Technologies hefur stefnt DoorDash í Bandaríkjunum og sakar helsta keppinaut sinn samkeppnishamlandi vinnubrögð. Bæði fyrirtækin sjá meðal annars um að senda matvæli heim til viðskiptavina frá veitingastöðum og verslunum.
Í málssókninni segir Uber að DoorDash þvingi gjarnan veitingastaði til að vinna einungis með DoorDash og hóti einnig að hækka gjöld fyrir veitingastaði sem notast einnig við Uber Eats-þjónustuna hjá Uber.
DoorDash segir að málið hafi engan rétt á sér og að ásakanir Uber byggist á vanhæfni fyrirtækisins til að bjóða neytendum og sendlum upp á fleiri valkosti.
Veitingastaðir greiða sendlaþjónustum þóknun fyrir auglýsingar og afhendingu á vörum. DoorDash var með 63% markaðshlutdeild í Bandaríkjunum fyrir þessa þjónustu á meðan Uber viðhélt 25% og var þá Grubhub með 6%.
Uber segir að það hafi höfðað mál eftir að hafa heyrt frá aðilum innan veitingageirans sem sögðu að þeir hefðu orðið fyrir einelti af hálfu DoorDash. Fyrirtækið fer fram á ótilgreinda upphæð í skaðabætur og dómsúrskurð sem myndi krefjast þess að DoorDash breyti vinnubrögðum sínum.