Mark Zuckerberg, forstjóri Meta, segist sjá eftir að hafa beygt sig undir fyrir ríkisstjórn Biden til að ritskoða tiltekið efni tengt Covid-19 á Facebook og Instagram á meðan heimsfaraldurinn stóð yfir.

Í bréfi til formanns dómsmálanefnd bandaríska þingsins segir Zuckerberg að starfsmenn Meta hafi „ítrekað“ orðið fyrir þrýstingi af hálfu háttsettra embættismanna í ríkisstjórn Biden til að ritskoða efni á samfélagsmiðlunum, þar á meðal grín og háðsádeilur.

„Ég tel þrýsting ríkisstjórnarinnar hafa verið óréttláta og ég sé eftir að hafa ekki tjáð mig meira um máið,“ segir í bréfi Zuckerberg sem dómsmálanefndin birti á samfélagsmiðlinum X í gærkvöldi.

„Ég tel eindregið að við ættum ekki að hvika frá reglum um efnistök sökum þrýstings frá ríkisstjórn, sama hvor áttina það er í – og við erum tilbúinn að streitast á móti ef eitthvað sambærilegt gerist aftur.“

Talsmaður Hvíta hússins varði aðgerðir ríkisstjórnarinnar og segir að hún hafi reynt að hvetja til ábyrgrar hegðunar og verja þannig lýðheilsu og öryggi þjóðarinnar í faraldrinum.

Zuckerberg segist einnig að Meta hefði ekki átt að tímabundið draga úr dreifingu á frétt New York Post um fartölvu sem tilheyrði Hunder Biden, syni Joe Biden núverandi Bandaríkjaforseta, í aðdraganda forsetakosninganna 2020, eftir að Bandaríska alríkislögreglan varaði við mögulegri herferð Rússa gegn Biden-fjölskyldunni.

Zuckerberg segir að síðar hafi komið í ljós að fréttin hafi ekki verið tilraun Rússa til að skapa upplýsingaóreiðu í kringum kosningarnar.