Nikkei 225 úrvalsvísitalan féll um 12,4% í viðskiptum mánudagsins eftir að mikill söluþrýstingur myndaðist á Asíumörkuðum. Vísitalan var þó ekki lengi að jafna sig og hækkaði strax um 10% strax á þriðjudaginn.
Markaðssérfræðingar hafa verið á báðum áttum um hvort jafnvægi sé náð í Japan eða hvort búast megi við frekara uppnámi á næstunni.
Sofie Manja Eger Huus, markaðssérfræðingur hjá Danske bank, segir að fjárfestar ættu ekki að hræðast japanska markaðinn þrátt fyrir óróleika mánudagsins.
Verðbólgan gæfuspor fyrir Japani
Í samtali við Børsen segist Sofie Huus sjá fjárfestingartækifæri í Japan sem hefur hingað til ekki verið vinsæll kostur meðal evrópskra fjárfesta.
„Nær allar greiningardeildir töluðu árum saman afar lítið um Japan og fjárfestar voru mjög sjaldan með japönsk hlutabréf í eignasafni sínu. Þetta breyttist árið 2023,“ segir Sofie Huus.
„Lengi vel var engin verðbólga í Japan, lítill vöxtur og miklar verðlækkanir. Árið 2023 hækkaði verðbólga á heimsvísu en ólíkt Evrópu og Bandaríkjunum var það í raun gæfuspor fyrir Japani.“
Þrátt fyrir sveiflurnar í vikunni hefur MSCI Japan vísitalan og Nikkei 225 úrvalsvísitalan hækkað um 6% á árinu. Það er þó ekki í samræmi við hækkanir á öðrum mörkuðum en MSCI World vísitalan hefur hækkað um 16% á sama tímabili.
Danske bank hefur verið stórtækur í viðskiptum í Japan en uppsveifla, meðal annars í ferðamennsku, hefur haft jákvæð áhrif á hlutabréf í landinu.
„Síðastliðið ár hefur aukin verðbólga, fjölgun ferðamanna og launahækkanir aukið vonir um að japönsk fyrirtæki geti farið að græða peninga,“ segir Sofie Huus og bætir við að skráð félög í Japan séu einnig að vera „vingjarnlegri við hluthafa sína.“
„Þau eru hætt að ríghalda í allt fé sitt líkt og venja var fyrir áður fyrr. Fjölmargar reglubreytingar hafa tekið gildi á síðustu árum sem hafa liðkað fyrir endurkaupum og arðgreiðslum. Félög eru mun meira að einblína á að vera með skilvirkan rekstur.“
Að sögn Sofie Huus hefur Danske bank þó ákveðið að skila auðu þegar kemur að japönskum hlutabréfum sem þýðir að bankinn telur að japanski hlutabréfamarkaðurinn sé hvorki að standa sig verr eða betur en markaðurinn heima fyrir.
Samkvæmt Sofie ráðleggur bankinn viðskiptavinum sínum að vera með um 5% af eignarsafni sínu í Japan um þessar mundir.
„Jákvæðnin hefur aðeins verið að dvína en við erum enn að mæla með japönskum hlutabréfum til viðskiptavina okkar,“ segir Sofie. Að hennar sögn hafa danskir fjárfestar verið að fá góða ávöxtun á þeim fjárfestingum sem þeir fóru í fyrir ári síðan.