Í skýrslu Jóns Helga Egilssonar, doktors í hagfræði, Húsnæðislán – Hvað má betur fara? sem unnin var fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið eru tekin saman nokkur sérkenni íslenska húsnæðislánamarkaðarins sem stinga í stúf við það sem gengur og gerist í Evrópu.
Vextir á íslenskum húsnæðislánum séu tiltölulega háir samanborið við önnur Evrópulönd. Í mörgum Evrópulöndum sé algengt að boðið sé upp á fasteignalán með föstum vöxtum til 5-10 ára og í Bandaríkjunum til allt að 30 ára. Á Íslandi séu sambærilegir valkostir 3-5 ár. Í samtölum við forsvarsmenn bankana hafi þrjú atriði helst verið nefnd sem hindrun þess að íslenskir bankar bjóði ekki fasteignalán með föstum vöxtum til langs tíma: núverandi reglur um uppgreiðslugjöld séu langt umfram lágmarkskröfur Evrópusambandsins, auk takmarkaðrar notkunar vaxtaskiptasamninga og gjaldmiðlaskiptasamninga.
Ísland skeri sig einnig úr með víðtæku framboði verðtryggðra húsnæðislána. Slík lán geti dregið úr virkni peningastefnunnar, þau séu flókin fjármálaafurð og óverðtryggð lán tryggi neytendum fyrirsjáanleika og öryggi hvað varðar afborganir og skuldastöðu. Þá komi tvískiptur markaður (verðtryggð og óverðtryggð lán) niður á stærðarhagkvæmni þar sem þessar ólíku fjármálaafurðir skipti fjármögnun fasteignalána upp í tvo markaði. Minni stærðarhagkvæmni og flóknari fjár- og áhættustýring geti leitt til aukins umsýslukostnaðar. Aukinn umsýslukostnaður sé líklegur til að endurspeglast í lakari vaxtakjörum fyrir íslenska neytendur. Að sama skapi sé tvískiptur markaður áhættuþáttur fyrir fjármálastöðugleika þar sem innbyrðis breytingar í útgáfu þessara tveggja fjármálaafurða endurspeglist í skekkju í verðtryggingajöfnuði bankanna.
Ísland hafi verið eftirbátur margra Evrópuríkja í útgáfu sértryggðra skuldabréfa. Undanfarin ár hafi þessi tegund heildsölufjármögnunar þó aukist verulega hér á landi. Sértryggð skuldabréf séu afar mikilvæg fyrir fjármögnun húsnæðislána í Evrópu. Þau bjóði upp á tryggingu fyrir fjárfesta vegna veðsettra eigna og lægri fjármagnskostnað fyrir banka, sem stuðli að betri kjörum fyrir lántakendur. Mikil útbreiðsla og traust á þessum skuldabréfum sé talið draga úr áhættu í bankakerfi Evrópu.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.