Á Hringborði Norðurslóða (e. Arctic Circle) um helgina tilkynnti Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrum forseti Íslands, að komið hafi verið á fót vinnuhópi í kringum fyrirhugaða fjárfestingarsjóðinn Arctic Investment Partners (AIP) sem mun einblína á fjárfestingar á Norðurslóðum.
Á bak við sjóðinn standa Arion banki, Pt. Capital, sem á hlut í Nova og Keahótelum, og fjárfestingarfélagið Guggenheim Partners.
Í tilkynningu segir að verkefnið muni setja ný viðmið um fjárfestingar á svæðinu með því að fylgja kjarnahugsjón um sjálfbæra þróun, ábyrga viðskiptahætti og umhverfisstefnu í samræmi við fjárfestingarreglur Efnahagsráðs Norðurslóða.
„Mótun AIP vinnuhópsins eru skilaboð til heimsins um hin gífurlegu tækifæri sem liggja í ábyrgum fjárfestingum og þróun á Norðurslóðum,“ er haft eftir Ólafi Ragnari.
„Ísland á margt sameiginlegt með öðrum þjóðum á Norðurslóðum. Ísland er dreifbýlt, með svipað veðurfar, hagkerfi okkar byggir á fiskveiðum og við erum með gnægð af orku. Við þekkjum vel til Norðurslóðanna og búum yfir töluverðri reynslu að safna fjárfestum saman. Norðurslóðirnar hafa mikið upp á bjóða efnahaghagslega yfir næstu áratugi og við viljum gjarnan vera virkir þátttakendur í frekari þróun svæðisins til framtíðar,“ segir Benedikt Gíslason, forstjóri Arion banka.