Kauphöllin, Nasdaq Iceland, hefur tilkynnt um nýjan undirmarkað fyrir skráða sérhæfða sjóði (e. Nasdaq Iceland Alternative Investment Fund Market). Skráðir sérhæfðir sjóðir hafa verið notaðir til að fjármagna ýmis konar fjárfestingarverkefni, t.d. við fjárfestingar í innviðum, skuldabréfum, fasteignum eða hrávöru.

„Markaðurinn hentar sérstaklega vel fyrir sjóði sem eru markaðssettir til fagfjárfesta; lífeyrissjóða og annarra stofnanafjárfesta, og býður hann upp á ný tækifæri til fjármögnunar sérhæfðra verkefna,“ segir í fréttatilkynningu.

Kauphöllin segir að með skráningu geti sjóðirnir m.a. boðið fjárfestum upp á seljanleika á markaði, sem skapar þeim ákveðinn sveigjanleika við fjárfestingar og lausafjárstýringu. Þeir geti að auki gefið út nýtt hlutafé til að fjármagna frekari fjárfestingar, greitt út arð, skuldsett sig – þar á meðal með útgáfu skráðra skuldabréfa – eða gripið til annarra fyrirtækjaaðgerða til að bregðast við breyttum aðstæðum.

„Við höfum fundið fyrir áhuga markaðsaðila á stofnun markaðar fyrir skráða sérhæfða sjóði og erum því mjög stolt af því að geta boðið upp á þennan nýja valkost,“ segir Baldur Thorlacius, framkvæmdastjóri sölu og viðskiptatengsla hjá Nasdaq Iceland.

„Skráning sérhæfðs sjóðs á skipulegan markað býr til trausta og gagnsæja umgjörð utan um aðkomu stofnanafjárfesta, eins og lífeyrissjóða, að ýmis konar sérhæfðum fjárfestingum. Við teljum að þetta verði kærkomin viðbót við markaðinn og geti stutt við ýmis spennandi fjármögnunarverkefni í efnahagslífinu.“

Markaður fyrir sérhæfða sjóði er skipulegur markaður samkvæmt lögum nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga og lýtur kröfum um viðvarandi upplýsingagjöf.