Tveir stjórnendur hjá Sjávarklasanum og stofnandi Iceland Startup vinna nú að því að koma á laggirnar nýjum vísisjóði, Blue Nova Ventures, sem mun sérhæfa sig í fjárfestingum í ungum tæknifyrirtækjum á sviði bláa hagkerfisins.

Vísisjóðurinn, sem verður byggður upp í samstarfi við Sjávarklasann, stefnir að því að tryggja sér fjármögnun upp á 4-5 milljarða króna.

Blue Nova Ventures var stofnað í lok síðasta árs af Þór Sigfússyni, stofnanda og stjórnarformanni Sjávarklasans, Kristni Þór Sigurðurssyni, verkefnastjóra hjá Sjávarklasanum, og Bala Kamallakharan, stofnanda Startup Iceland og fjárfestis í nýsköpunarfyrirtækjum.

Eðlilegt næsta skref hjá Sjávarklasanum

Kristinn Þór segir í samtali við Viðskiptablaðið að Blue Nova sé byggður á grunni Sjávarklasans sem hafi undanfarin ár orðið leiðandi afl í nýsköpun innan bláa hagkerfisins. Hús sjávarklasans sé í dag samfélag yfir 70 fyrirtækja og frumkvöðla í hafsækinni starfsemi.

„Samfélagið sem við höfum byggt upp hefur laðað að sér fjölda frumkvöðla, ekki aðeins frá Íslandi heldur einnig erlendis frá, og hefur aðgangur að nýsköpunarverkefnum aukist verulega,“ segir Kristinn Þór.

„Klasa módelið hefur virkað gríðarlega vel og höfum við fengið mikla athygli erlendis frá, og höfum aðstoðað við að stofna aðra eins klasa víða um heim. Við höfum orðið eins konar miðpunktur frumkvöðla, sérfræðinga og atvinnulífsins, sem gefur okkur einstaka möguleika til að styðja við þessi fyrirtæki. Sjóðurinn er því eðlilegt næsta skref í okkar vegferð.“

Mikil gróska og tækninýjungar eigi sér nú stað í frumkvöðlasenu bláa hagkerfisins. Hann nefnir m.a. gervigreindarlausnir fyrir sjávarútveg eða fiskeldi, nýjar lausnir í líftækni og lausnir fyrir flutninga.

Það skjóti því skökku við að „Líf í vatni“ markmiðið sé minnst fjármagnaða heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna. Talið sé að það vanti u.þ.b. 1.800 milljarða króna til þess að ná markmiðinu og viðhalda heilsu hafsins.

„Það er því að miklu að vinna, enn við erum alltaf að sjá fleiri nýsköpunarfyrirtæki í bláa hagkerfinu ná frábærum árangri og teljum við að við munum sjá töluvert fleiri á komandi árum. Við á Íslandi erum einnig í einstakri stöðu til að byggja upp fleiri alþjóðleg stórfyrirtæki á þessu sviði, með alla þá þekkingu og auðlindir sem við búum við.“

Kristinn Þór Sigurðsson segir að Blue Nova sé byggður á grunni Sjávarklasans.
© Aðsend mynd (AÐSEND)