Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, fór hörðum orðum um fyrirhugaða tvöföldun veiðigjalda í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.
Hann sagði hækkunina jafngilda 100% skattahækkun á sjávarútveginn og gagnrýndi sérstaklega verklag ríkisstjórnarinnar, sem hann sagði ganga gegn eigin reglum, sýna skort á samráði og setja sjávarbyggðir „í fullkomna óvissu“.
Karl Gauti sagði jafnframt að þessi 111 daga ríkisstjórnin væri með alla sína áherslu á skattahækkanir, meðal annars á hjón og sambúðarfólk með niðurfellingu samsköttunar, með kílómetragjaldi, aukinni skattheimtu á ferðaþjónustu og stórhækkun veiðigjalda.
Hann vakti sérstaka athygli á því að viðmiðun fyrir gjaldtöku vegna uppsjávartegunda væri sótt til Noregs, þrátt fyrir gengissveiflur og mismunandi kerfi styrkja og niðurgreiðslna milli landanna.
„Veittur var örstuttur tími til athugasemda í samráðsgátt og þar þverbrýtur ríkisstjórnin sínar eigin verklagsreglur,“ sagði Karl Gauti.
Hann sagði þar að auki virðist ríkisstjórnin beinlínis harðákveðin í að hafa að engu allar athugasemdir sem bárust í samráðsgátt og liggja fyrir ótvíræðar yfirlýsingar í því efni.
„Loks er engin minnsta tilraun gerð til þess að meta áhrifin á hag sveitarfélaga og sjávarbyggðanna eða yfirleitt að ræða við þau sveitarfélög sem hvað mest munu finna fyrir áhrifum af hækkuninni. Með þessu virðist ríkisstjórnin staðráðin í að setja sjávarbyggðir hringinn í kringum landið í fullkomna óvissu.“
Þá spurði hann hvort ráðherra teldi að sjómenn myndu í kjölfarið krefjast þess að skiptahlutur þeirra miðaðist við „hið norska verð“, rétt eins og ríkisstjórnin ætlaði að nota sem viðmiðun í gjaldtöku.
„Hvernig hyggst ríkisstjórnin tengja álagningu veiðigjalds við afurðaverð í Noregi? Hvernig munu hugsanlegar sveiflur í gengi norsku krónunnar spila þar inn í eða sveiflur í styrkjum og niðurgreiðslum í norskum sjávarútvegi til veiða og vinnslu? Má búast við því að fleiri skattar ríkisstjórnarinnar verði tengdir verðlagi í Noregi, t.d. skattar í ferðamannageiranum, nú eða í fiskeldinu?”
Atvinnuvegaráðherra hafnar ásökunum
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra hafnaði ásökunum þingmannsins og sagði margar fullyrðingarnar rangar. Hún sagði m.a. að tekið væri tillit til gengissveiflna í frumvarpsdrögunum og hafnaði þeirri fullyrðingu að niðurgreiðslur væru útbreiddar í norskri vinnslu.
Hún sagði einnig að rétt væri að hækka veiðigjöld til að tryggja að þjóðin nyti verðmætis fiskauðlindarinnar og bætti við: „Við erum að leiðrétta gjöld, við erum að fara að gera það sem ríkisstjórnum fyrri ára hefur annaðhvort mistekist að gera eða þær hafa ekki haft nokkurn minnsta áhuga á að gera.“
Hvað varðaði samráðsleysi vísaði hún gagnrýni á bug og sagði að viðræður hefðu átt sér stað við sveitarfélög og að greiningarvinna væri unnin. Þá sagði hún ekki rétt að meirihluti umsagna í samráðsgátt hefði verið neikvæður, eins og haldið hefði verið fram.
„Ríkisstjórnin hefur sýnt sitt rétta andlit“
Í síðari ræðu sinni hélt Karl Gauti gagnrýninni áfram og sagði að raunverulegur vandi ríkissjóðs væri á útgjaldahliðinni.
Ríkisstjórnin, sem væri aðeins 111 daga gömul, hefði „sýnt sitt rétta andlit“ með áherslu á skattahækkanir, meðal annars á hjón og sambúðarfólk með niðurfellingu samsköttunar, með kílómetragjaldi, aukinni skattheimtu á ferðaþjónustu og stórhækkun veiðigjalda.
Hann spurði hvar væru greiningarnar sem sýndu áhrifin á kjör sjómanna, fjárhag fyrirtækja og byggðarlögin. Þingmaðurinn talaði um „fordæmalaust fyrirhyggjuleysi“ af hálfu stjórnvalda.
Ráðherra: Tillögur eru fjölmargar og við erum rétt að byrja
Hanna Katrín svaraði því að ríkisstjórnin hefði kynnt fjölmargar hagræðingartillögur og bætti við að hún væri „bara rétt að byrja þar“.