Ríkisstjórn Bretlands hefur ákveðið að setja nýjar viðskiptaþvinganir á hinn svokallaða rússneska skuggaflota. Flotinn samanstendur af rúmlega 100 flutningsskipum sem hafa flutt meira en 18 milljarða punda virði af olíu og gasi frá byrjun árs 2024.
Á vef BBC segir að Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands hafi tilkynnt viðskiptaþvinganirnar á leiðtogafundi í Ósló.
Eftir innrás Rússa í Úkraínu árið 2022 lögðu mörg vestræn ríki viðskiptaþvinganir á rússnesk orkufyrirtæki með því að takmarka innflutning. Skuggaflotinn hefur hins vegar verið notaður til að komast fram hjá þeim viðskiptaþvingunum.
Samkvæmt aðgerðunum verður flotanum bannað að sigla inn í breskar hafnir og eiga skipin í hættu á að vera stöðvuð ef þau sigla inn í breska löghelgi.