Alþjóðleg fyrirtæki hafa heitið því að fjárfesta fyrir að minnsta kosti 1,9 þúsund milljarða (e. trillions) dala í Bandaríkjunum frá því að Donald Trump var kjörinn Bandaríkjaforseti í nóvember síðastliðnum, samkvæmt úttekt Financial Times. Talið er að útspil Trumps í tollamálum kunni þó að ógna þessum fjárfestingaráformum.
Til samanburðar við ofangreinda fjárhæð var tilkynnt um fjárfestingar í bandarískum iðnaði fyrir 910 milljarða dala á forsetatíð Joe Biden samkvæmt gögnum viðskiptaráðuneytis Bandaríkjanna.
Meðal fyrirtækja sem hafa opinberað áform um risafjárfestingar í Bandaríkjunum eru SoftBank og örgjörvaframleiðandinn TSMC sem tilkynntu um áform um 100 milljarða dala fjárfestingar í landinu hvor, Apple sem gaf út að félagið hyggist fjárfesta fyrir 500 milljarða dala í Bandaríkjunum á yfirstandandi kjörtímabili, franska skipaflutningsfyrirtækið CMA CGM sem áformar 20 milljarða dala fjárfestingu og bílaframleiðandinn Stellantis sem upplýsti um 5 milljarða dala fjárfestingaráform.
Í umfjöllun FT segir að umrædd fjárfestingarloforð komi frá fyrirtækjum með alþjóðlegar virðiskeðjur sem eru viðkvæmar fyrir umfangsmiklum tollum gagnvart stórum viðskiptaríkjum á borð við Kína, Indland og Evrópusambandsríki.
Haft er eftir dósent við Dartmouth sem er sérfræðingur í alþjóðaviðskiptum að skaði vegna tollastefnu Trumps nái langt umfram ofangreind fjárfestingarloforð um samtals 1,9 þúsund milljarða dala. Óvissan sem hefur skapast í heimshagkerfinu leiði af sér að enginn sé í stöðu til þess að ráðast í stórar langtímafjárfestingar.
Trump sagði í lok mars að fjármagn væri að streyma inn í bandaríska hagkerfið vegna viðskiptastefnu sinnar. Bent er á að eftir að hann tilkynnti um 20% tolla á innflutning frá aðildarríkjum ESB hafi Emmanuel Macron Frakklandsforseti hvatt frönsk fyrirtæki til að stöðva fjárfestingar í Bandaríkjunum á meðan að framkvæmdaráð ESB vinnur að viðbrögðum við tollunum.
Tilkynntir tollar hafa gert ofangreindum fyrirtækjum erfitt fyrir. Stellantis, sem framleiðir Jeep og Ram jeppanna, hefur þegar tilkynnti nýlega um að það hyggist skerða starfshlutfall 900 starfsmanna í fimm verksmiðjum í Bandaríkjunum og stöðva tímabundið framleiðslu í Kanada og Mexíkó vegna óvissu í tollamálum.
Markaðsvirði Apple, sem tilkynnti í febrúar um markmið um 500 milljarða dala fjárfestingu í Bandaríkjunum, hefur lækkað um meira en 300 milljarða dala eftir að Trump tilkynnti um umfang boðaðra tolla í síðustu viku. Tollarnir munu hafa mikil áhrif á virðiskeðju Apple.
Suður-kóreski bílaframleiðandinn Hyundai hafði gefið það út að hann hygðist fjárfesta fyrir 21 milljarð dala yfir þriggja ára tímabil til að auka umfang framleiðslu sinnar í Bandaríkjunum og skapa um leið 100 þúsund störf. Engu að síður hefur Trump ákveðið að leggja 25% toll á alla bíla sem framleiddir eru utan Bandaríkjanna. Auk þess lagði hann 25% toll á innflutning frá Suður-Kóreu.