Skaginn 3X sagði upp sextán starfsmönnum á þriðjudaginn síðasta, þar af sjö á Akranesi og í Reykjavík og níu manns á Ísafirði. Skessuhorn greinir frá þessu.

Fram kemur að uppsagnirnar séu hluti af skipulagsbreytingum hjá fyrirtækinu sem felur í sér að öll verkefni verði aðeins seld og afhent til viðskiptavina frá Akranesi en ekki á báðum stöðum; Ísafirði og Akranesi, eins og verið hefur fram til þessa. Auk þessi verða innkaup og vöruhús á einum stað í stað tveggja.

Á Ísafirði verði þó framleiddir íhlutir fyrir stærri vörulausnir samstæðunnar. Einnig verði aukin áhersla lögð á vöruþróun á starfsstöð Skagans 3X á Ísafirði.

Haft er eftir Guðjóni M. Ólafssyni, forstjóra Skagans 3X, að ytri aðstæður á mörkuðum hafi reynst fyrirtækjum í samstæðunni erfiðar á síðustu tveimur árum.

„Afleiðingar Covid þekkja allir en stríðsátökin í Austur-Evrópu hafa m.a. leitt til hækkandi hráefnisverðs, hækkunar verðs á íhlutum og ekki síst hefur þrengt mjög að mörkuðum. Þessar erfiðu aðstæður eru ástæðan fyrir þeim skipulagsbreytingum sem við ráðumst nú í,“ hefur Skessuhorn eftir Guðjóni.

„Markmiðið með þessum skipulagsbreytingum er að bæta samkeppnishæfni fyrirtækisins, ná skýrara vöruframboði og einfaldari rekstri. Við ætlum að gera rekstur fyrirtækisins betur í stakk búið til að takast á við sín verkefni í því erfiða ástandi sem nú ríkir á mörkuðum. Við erum að velta við hverjum steini í rekstrinum og þessar skipulagsbreytingar eru hluti af því ferli.“

Þýska fyrirtækið Baader keypti eftirstandandi 40% hlut í Skaganum 3X í byrjun árs og er nú eigandi alls hlutafjár félagsins. Baader, sem eignaðist 60% hlut í fyrirtækinu í ársbyrjun 2021, keypti Skagann 3X af I.Á.-Hönnun, félagi í eigu Ingólfs Árnasonar, stofnanda Skagans 3X, og Guðrúnar Agnesar Sveinsdóttir, eiginkonu hans. Ingólfur lét af störfum sem forstjóri í desember síðastliðnum.