Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) hafa fallist á að greiða 20 milljónir króna í sekt og viðurkenna brot gegn samkeppnislögum og fyrirmælum sem hvíla á samtökunum á grundvelli eldri ákvörðunar. Um er að ræða hluta af sátt SFF við Samkeppniseftirlitið (SKE) vegna máls sem snýr að opinberri umfjöllun í haust um verðlagningu tryggingafélaga á ökutækjatryggingum. Þetta kemur fram í tilkynningu SKE.

Þar segir að upphaf málsins megi rekja til opinberrar umfjöllunar af hálfu SFF um verðlagningu tryggingafélaga í kjölfar gagnrýni Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) á iðgjöld ökutækjatrygginga. FÍB sendi SKE kvörtun um miðjan septembermánuð vegna umfjöllunarinnar og óskaði eftir því að eftirlitið tæki til rannsóknar hvort hagsmunagæsla SFF fyrir hönd aðildarfélaga sinna bryti gegn ákvæðum samkeppnislaga.

Í tilkynningunni segir að eftir að rannsóknin hófst sneri SFF sér til eftirlitsins og óskaði eftir viðræðum um að ljúka málinu með sátt. Á mánudaginn fyrir viku var sátt undirrituð og í henni viðurkennir SFF að hafa brotið gegn samkeppnislögum.

„Fólust brot SFF í því að samtökin tjáðu sig opinberlega um verðlagsmál aðildarfélaga sem starfa á vátryggingarmarkaði og héldu uppi vörnum um verðlagsstefnu þeirra í kjölfar gagnrýni FÍB. SFF fóru þannig með opinbert fyrirsvar varðandi verðlagningu og þjónustu aðildarfyrirtækja sinna sem kom í veg fyrir að aðildarfyrirtækin tækju hvert og eitt til varna um verðlagsstefnu sína með sjálfstæðum hætti,“ segir í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins.

Eftirlitið mat það svo að brot SFF væru þess eðlis að réttlæta hámarksfjárhæð sektar á samtökin eða sem nemur 10% af veltu þeirra. Hins vegar ákvað SKE að beita ekki ákvæðum samkeppnislaga sem heimili að leggja hærri sekt á hagsmunasamtök fyrirtækja sökum þess að SFF hafi óskað eftir eigin frumkvæði eftir sáttarviðræðum og viðurkenndu brotið greiðlega.

Ekki ætlunin að raska samkeppni

Í tilkynningu á vef SFF vegna málsins segir að málið snúi að tveimur greinum sem birtust í nafni SFF í kjölfar umræðu um vátryggingariðgjöld, önnur á vefsíðu samtakanna og hin á vefmiðli. Var þar fjallað um ýmsa þætti vátryggingamarkaðarins og áhrif þeirra á iðgjöld, auk þess sem reifaðar voru hugmyndir að lagabreytingum sem skapað gætu forsendur til lækkunar iðgjalda hér á landi.

„Samtök fjármálafyrirtækja lögðu, líkt og fram kemur í sáttinni, áherslu á að með málflutningi sínum hafi ásetningurinn ekki verið að raska samkeppni heldur opna umræðu um mögulegar leiðir sem skapað geta forsendur til lækkunar iðgjalda, líkt og farnar hafa verið annars staðar á Norðurlöndum,“ segir í tilkynningu SFF.

Katrín Júlíusdóttir framkvæmdastjóri SFF:

„Við leggjum mikla áherslu á fylgni við samkeppnislög í öllu okkar starfi. Í umræddum greinum viðurkennum við að hafa mátt gæta okkar betur og í kappinu við að koma okkur inn í umræðu um leiðir sem leitt geta til lækkunar iðgjalda, fórum við lengra í okkar umfjöllun um forsendur verðlagningar en æskilegt er. Þykir okkur þetta afar miður og munum við gæta okkar enn betur framvegis og skerpa á okkar ferlum. Við munum þó halda áfram að vekja athygli á nauðsynlegum lagabreytingum sem við teljum að þurfi að ráðast í og gætu komið markaðnum og ekki síst neytendum til góða innan þess ramma sem okkur er heimilt.“