Héraðs­dómur í Glostrup hefur dæmt breska við­skipta­manninn Sanjay Shah í 12 ára fangelsi fyrir stór­felld fjár- og skatt­svik í Dan­mörku.

Danska ríkið gerir jafn­framt eigur að verðmæti 7,2 milljarða danskra króna, eða 140 milljarða ís­lenskra króna, upp­tækar. Sam­svarar það um 80% af þeim 9 milljörðum danskra króna sem hann sveik af danska ríkinu.

Shah verður jafn­framt meinað að stjórna fyrirtæki í Danmörku og mun danska ríkið vísa honum úr landi að fangelsisrefsingu lokið.

Sam­kvæmt Børsen mætti Shah í dóms­sal með jóla­sveina­húfu á hausnum og sýndi engin viðbrögð við dóms­upp­kvaðningu.

Um er að ræða lengsta fangelsis­dóm í sögu Dan­merkur fyrir efna­hags­brot.

Sam­kvæmt Børsen fékk dönsk-rúss­neska konan Irene Ellert þyngsta efna­hags­brota­dóm í sögunni fyrr á árinu er hún var dæmd í níu ára fangelsi fyrir peningaþvætti.

Shah var dæmdur fyrir að vera höfuðpaurinn í fjár­svikum fjár­mála­fyrir­tækisins Solo Capi­tal en hann stofnaði félagið árið 2009.

Hægri hönd Shah, breski verðbréfa­miðlarinn Mark Patter­son, var dæmdur í átta ára fangelsi í mars á þessu ári fyrir þátt­töku sína í svikunum.

Shah var dæmdur fyrir að hafa búið til gervi­við­skipti með félög sem voru skráð í Bandaríkjunum og Malasíu en litu út fyrir að vera erlendir líf­eyris­sjóðir.

Solo Capi­tal lét líta út eins og „líf­eyris­sjóðirnir“ væru að fjár­festa í Dan­mörku sótti um skatta­afslætti sökum þess.

Solo Capi­tal sá um öll við­skiptin og tók 80% þóknun fyrir.

Sam­kvæmt ákærunni tókst Shah að fá endur­greiddar 9 milljarða danskra króna, eða um um 183 milljörðum ís­lenskra króna, frá skattinum.

Við­skiptin áttu sér stað á árunum 2012 til 2015 eða þangað til skatta­yfir­völdum varð ljóst að þessir svo­kölluðu líf­eyris­sjóðir áttu aldrei neinar eignir eða hluta­bréf í Dan­mörku líkt og fölsuð skjöl sögðu til um.

Shah var hand­tekinn í Dubaí að beiðni danskra stjórn­valda árið 2022 og fram­seldur til Dan­merkur í desember í fyrra.

Shah sagðist sak­laus af öllum ákærum og sagðist einungis hafa nýtt sér smugu í dönskum lögum um skatta­endur­greiðslur.