Kínverska fatanetverslunin Shein stefnir á að halda frumútboð í Bandaríkjunum árið 2024. Þetta kemur fram í grein hjá Bloomberg.
Shein hafði áður reynt að halda frumútboð 2020 en hefur verið í erfiðleikum með að ná góðri ESG frammistöðu. ESG eru viðmið fyrir fyrirtæki til að fylgja eftir þegar kemur að umhverfislegum og félagslegum þáttum og stjórnarháttum. Talið er að slæm ESG frammistaða gæti komið í veg fyrir að frumútboðið gangi eftir sem skyldi.
Samkvæmt Bloomberg er Shein að vinna í því að bæta ESG frammistöðu sína, en félagið hefur verið gagnrýnt fyrir slæma vinnuaðstöðu og óumhverfisvæna framleiðslu.
Sjá einnig: Verðmætara en H&M og Zara til samans
Shein var stofnað árið 2008 af Chris Xu, en félagið jók markaðshlutdeild sína verulega á bandarískum markaði í faraldrinum. Þannig er engin önnur fataverslun sem selur jafn mikið af fötum og Shein á þeim markaði.
Shein tryggði sér 1-2 milljarða dala fjármögnun fyrr á árinu. Varð fyrirtækið þá 100 milljarða dala virði og um leið eitt af verðmætustu fyrirtækjum heims. Til samanburðar var Shein 15 milljarða dala virði árið 2020 og hefur virði félagsins því rúmlega sjöfaldast á tveimur árum.
Shein er þannig orðið meira virði en samanlagt markaðsvirði H&M og fataheildsalans Inditex sem á fataverslanir á borð við Zara, Pull&Bear og Bershka.