Kínverska hraðtískunetverslunin Shein hefur snúið aftur til Indlands eftir fimm ára bann. BBC greinir frá því að indverska fyrirtækið Reliance Retail hafi gert langtímasamning við móðurfélag Shein til að selja vörur sem eru framleiddar á Indlandi.
Að sögn Piyush Goyal, viðskiptaráðherra Indlands, þarf Shein hins vegar að fylgja ströngum skilmálum sem fela meðal annars í sér að vista öll gögn fyrirtækisins innan Indlands.
Shein var, ásamt TikTok og tugum annarra kínverskra smáforrita, bannað á Indlandi árið 2020. Stjórnvöld sögðust þá vera að bregðast við áhyggjum um gagnaöryggi en um það leyti ríkti mikil spenna milli Indlands og Kína á umdeildum landamærum við Himalajafjöll.
Frá því smáforritið fékk aftur starfsleyfi á föstudaginn síðasta hefur það verið hlaðið niður meira en tíu þúsund sinnum. Eins og er mun Shein aðeins afhenda föt til íbúa í Delhi, Mumbai og Bengaluru en mun á næstunni þjónusta allt Indland.
Á síðasta áratug hefur Shein breyst frá því að vera lítið þekkt vörumerki sem var vinsælt aðeins meðal eldri kaupenda í eina af stærstu tískunetverslunum heims. Í dag sendir fyrirtækið föt til viðskiptavina í 150 löndum.