Olíufyrirtækið Shell og Greenpeace hafa sæst í umdeildri málsókn en Shell hótaði að lögsækja samtökin fyrir að hafa hertekið olíuborpall undan strönd Kanaríeyja í 13 daga.
Shell vildi fá 2,1 milljón dala í skaðabætur en lögsóknin var ein sú stærsta sem höfðuð hefur verið gegn umhverfisverndarsamtökunum.
Sáttin felst í því að Greenpeace mun ekki bera neina ábyrgð né greiða neina fjárhæð til Shell en mun þess í stað gefa 53 þúsund dali til góðgerðarsamtakanna Royal National Lifeboat Institution.
Shell segir að fyrirtækið sé ánægt með að það hafi verið hægt að leysa deiluna og að greiðslan frá Greenpeace muni gagnast góðgerðarsamtökum sem vinna til að stuðla að öryggi á sjónum.
„Fyrir Shell er rétturinn til að mótmæla grundvallaratriði og það hefur aldrei verið það sem þetta snýst um. Þess í stað snerist þetta mál um mótmælendur sem fóru ólöglega um borð og, að mati dómara, stofnuðu eigin lífi og lífi áhafnarinnar í hættu,“ segir talsmaður Shell.
Greenpeace stendur einnig frammi fyrir lagadeilu í Bandaríkjunum frá leiðslufyrirtækinu Energy Transfer vegna mótmæla við Dakota Access Pipeline árið 2016 og hafa samtökin einnig verið kærð af ítalska olíufyrirtækinu ENI.