Tobi Lutke, forstjóri söluþjónustufyrirtækisins Shopify, segir að fyrirtækið muni héðan í frá ekki ráða neina nýja starfsmenn nema stjórnendur geti sannað að ákveðnu starfi geti ekki verið sinnt af gervigreind.

Þetta kemur fram á síðu WSJ en samkvæmt minnisblaði sem forstjórinn sendi nýlega frá sér þurfa starfsmenn Shopify einnig að samþætta gervigreindina inn í dagsdagleg störf sín.

Shopify er þjónusta sem gerir söluaðilum kleift að setja upp vefverslun á vefsíðu sinni með auðveldum hætti. Fyrirtækið býður einnig upp á vefhýsingu og aðstoð við svokallað dropshipping.

„Áður en teymi biður um auka starfsmenn og fjármagn þá þarf teymið að sýna fram á hvers vegna það getur ekki fengið það sem það þarf með gervigreind. Hvernig myndi þetta svæði líta út ef sjálfstætt starfandi gervigreind væri þegar hluti af teyminu?“ skrifar Lutke.

Hann bætti við að starfsmenn yrðu yfirheyrðir um gervigreindarnotkun sína á fundum um frammistöðu þeirra. Minnisblaðið minnti hins vegar ekki á það hvort gervigreindarnotkun fyrirtækisins myndi leiða til uppsagna.