Umsvif íslenska heilbrigðistæknifyrirtækisins Sidekick Health hafa stækkað umtalsvert á síðustu árum. Árlegur vöxtur í starfsemi Sidekick hefur verið um 80% að meðaltali síðustu ár og gera áætlanir félagsins ráð fyrir að tekjur þess verði talsvert yfir 2 milljarðar króna í ár. Þá er áætlað að Sidekick byrji að skila hagnaði á næsta ári.

Umsvif íslenska heilbrigðistæknifyrirtækisins Sidekick Health hafa stækkað umtalsvert á síðustu árum. Árlegur vöxtur í starfsemi Sidekick hefur verið um 80% að meðaltali síðustu ár og gera áætlanir félagsins ráð fyrir að tekjur þess verði talsvert yfir 2 milljarðar króna í ár. Þá er áætlað að Sidekick byrji að skila hagnaði á næsta ári.

Félagið hefur fjárfest kröftuglega í þróun og rannsóknum ásamt annarri uppbyggingu og vexti undanfarin ár. Frá ársbyrjun 2020 fram til sumarsins 2023 fjölgaði starfsmönnum úr 15 í tæplega 150 manns sem má alfarið rekja til innri vaxtar.

Í Viðskiptablaði vikunnar er fjallað um kaup Sidekick á þýsku félögunum Aidhere og PINK!. Í kjölfar þessara yfirtaka eru starfsmenn Sidekick orðnir hátt í 300 talsins en félagið er með starfsstöðvar á Íslandi, í Þýskalandi og Bandaríkjunum.

Í viðtali við Viðskiptablaðið í ágúst síðastliðnum sagði Tryggvi Þorgeirsson, forstjóri Sidekick, frá því að félagið væri komin með augun í auknum mæli á ytri vöxt. Spurður hvort von sé á frekari yfirtökum, þá kveðst hann spenntur að skoða fleiri tækifæri til ytri vaxtar.

„Ég tel að það verði áfram spennandi tækifæri fyrir blöndu af innri og ytri vexti. Þar sem við höfum byggt upp kerfi (e. platform) með breitt úrval lausna sem ná yfir 20 mismunandi sjúkdómaflokka. Það hefur gefist vel að taka inn stakar lausnir til viðbótar, m.a. þar sem við getum dreift þeim víðar í gegnum okkar samstarfssamninga.“

Sidekick á í samstarfi við fimm af tuttugu stærstu heilbrigðisfyrirtækjum heims sem nýta vörur félagsins. Má þar m.a. nefna stærsta sjúkratryggingafyrirtæki Bandaríkjanna og lyfjarisa eins og Eli Lilly og Pfizer.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um Sidekick Health og kaup þess á þýska félaginu PINK! í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn.