Íslenska heilbrigðistæknifyrirtækið Sidekick Health hefur gengið frá kaupum á þýska fyrirtækinu aidhere GmbH, sem hefur verið leiðandi í lyfseðilskyldum heilbrigðistæknilausnum.

Sidekick Health hefur verið í miklum vexti undanfarið og er félagið vel fjármagnað eftir fjármögnunarlotu í fyrra.

„Við erum orðið eitt allra stærsta og þekktasta fyrirtæki í okkar geira. Sem dæmi um það þá erum við að vinna með stærsta sjúkratryggingafélagi Bandaríkjanna og stærsta lyfjafyrirtæki í heimi. Við erum vel þekkt á okkar markaði fyrir sterkar vörur, útkomur og teymi,“ segir Tryggvi Þorgeirsson, forstjóri og annar stofnenda Sidekick.

„Það eru að myndast spennandi tækifæri á markaðnum núna. Við erum að skoða ýmis tækifæri til ytri vaxtar, þ.e. sérstaklega með yfirtökum. Af því að við erum vel þekkt á okkar markaði þá eru þessi tækifæri gjarnan að berast til okkar.“

Viðskiptablaðið greindi frá því í lok ágúst að fyrirtækið hafi fengið samþykkt yfirtökutilboð í erlent fyrirtæki og í lok september var formlega gengið frá kaupum á þýska fyrirtækinu aidhera GmbH.

„Þetta er ríflega 130 manna fyrirtæki með höfuðstöðvar í Hamborg. Þau eru með mjög sterka lausn sem er lyfseðilsskyld heilbrigðistæknilausn við offitu, þ.e. atferlismeðferð sem læknir þarf að ávísa með lyfseðli og sjúkratryggingar greiða þá fyrir, sambærilegt og gert er með hefðbundin lyf.“

Kaupin verða formlega kynnt á ráðstefnu í Las Vegas í Bandaríkjunum í vikunni. Fjögur önnur fyrirtæki voru að sögn Tryggva að keppast um að kaupa aidhere, en Sidekick gátu hreyft sig hratt í sumar og gengið frá kaupunum af eigin efnahagsreikning.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Hægt er að lesa fréttina í heild hér.