Íslenska heilbrigðistæknifyrirtækið Sidekick Health hefur undirritað 35 milljóna evra fjármögnunarsamning, eða sem nemur 5,1 milljarði króna, við Evrópska fjárfestingarbankann (EIB).

Þetta er fyrsti vaxtarskuldabréfasamningur (e. venture debt) bankans við íslenskt fyrirtæki, að því er segir í tilkynningu frá EIB.

Samhliða hefur Sidekick lokið 7 milljóna evra fjármögnun, eða sem nemur einum milljarði króna, með útgáfu breytanlegra skuldabréfa. Núverandi og nýir fjárfestar komu að þeirri fjármögnun, þar á meðal íslenskir fjárfestar. Umframeftirspurn var eftir breytanlegum skuldabréfum félagsins.

Lánalína EIB er alfarið eyrnamerkt rannsóknum og þróun. Hún gerir Sidekick kleift að draga fé í skrefum eftir þörfum til að halda áfram að útvíkka meðferðarúrræði félagsins.

Vaxtarskuldarsamningurinn frá EIF er studdur af InvestEU áætlun Evrópusambandsins. Þetta er fimmta InvestEU verkefnið á Íslandi.

EIB segir að fjármögnunin styðji Sidekick m.a. þegar kemur að rannsóknum og þróun, fjölgun heilbrigðismeðferða, notkun gervigreindar og ferkari þróun kerfis (e. platform) félagsins.

Tryggvi Þorgeirsson, forstjóri Sidekick Health, segir að fjármögnun EIB geri félaginu kleift að sækja enn hraðar fram til að bæta útkomur sjúklinga og bjarga lífum með stafrænni heilbrigðistækni.

Þetta er fyrsti vaxtarskuldabréfasamningur EIB við íslenskt fyrirtæki.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Sidekick Health hefur stækkað umtalsvert á síðustu tveimur árum með kaupum á tveimur þýskum fyrirtækjum á sviði lyfseðilsskyldra heilbrigðistæknilausna.

Rekstur Sidekick má í meginatriðum flokka í þrjár grunnstoðir. Í fyrsta lagi vinnur félagið með lyfjafyrirtækjum í að styðja við lyfjameðferðir þeirra. Í öðru lagi vinnur Sidekick með sjúkratryggjendum sem nýta tækni félagsins til að bæta útkomur sjúklinga og bæta nýtingu auðlinda í heilbrigðiskerfum. Lyfseðilsskyldar heilbrigðistæknilausnir mynda þriðju stoðina.