Mikilvægt er að fylgjast með viðræðum við kröfuhafa gömlu bankanna, að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins. Hann vakti máls á viðræðunum í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun. Tæp vika er síðan slitastjórn Glitnis greindi frá því að hún hefði frestað því að leggja fram nauðasamninga. Slitastjórnin vísaði til þess að nýverið hafi Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagt frá því í fjölmiðlum að nauðsynlegar forsendur þyrftu að vera fyrir hendi til að bankinn geti gefið samþykki sitt fyrir nauðasamningnum.
Már segir í samtali við vb.is í dag að áður en bankinn samþykki nauðasamninga föllnu bankanna verði þeir að fullvissa Seðlabankann um að samningarnir stefni ekki fjármálastöðugleika í hættu og raski ekki gjaldeyrisjöfnuði.
Sigmundur sagði á Alþingi að hann hafi spurt ráðherra um stöðu viðræðna en ekki fengið nein svör.
„Ekki er hægt að fá upplýsingar um það hver hefur umboð til slíkra viðræðna og hvort viðræður standa yfir,“ sagði Sigmundur og hvatti forseta Alþingis til að fylgja málinu eftir.