Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands (BÍ), er komin í launalaust leyfi frá RÚV meðan hún gegnir fullu starfi á skrifstofu félagsins þar til gengið hefur verið frá ráðningu nýs framkvæmdastjóra. Hún staðfestir þetta í samtali við Viðskiptablaðið.

Greint var frá því fyrr í dag að Hjálmari Jónssyni, framkvæmdastjóra Blaðamannafélags Íslands, hafi verið sagt upp störfum eftir áratuga starf hjá félaginu. Í yfirlýsingu stjórnar BÍ kemur fram að stjórnin muni á næstu dögum auglýsa eftir nýjum framkvæmdastjóra félagsins.

Hjálmar tjáði fjölmiðlum að honum hefði verið sagt upp fyrirvaralaust af stjórn Blaðamannafélagsins. Jafnframt sagðist hann telja Sigríði Dögg ekki vaxin starfi sínu sem formaður BÍ. Stjórn BÍ bar fyrir sig trúnaðarbrest á milli stjórnar og framkvæmdastjóra.

Sækist eftir endurkjöri

Formannskjör fer fram á aðalfundi Blaðamannafélagsins á næstu mánuðum. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Sigríður Dögg að aðalfundurinn muni fara fram fyrir lok apríl. Aðspurð segist hún ætla að sækjast eftir endurkjöri sem formaður.

Í tilkynningu stjórnar BÍ kemur fram að Sigríður Dögg verði í fullu starfi á skrifstofu félagsins þar til gengið hefur verið frá ráðningu nýs framkvæmdastjóra og hann tekinn til starfa. Hún er nú komin í launalaust leyfi frá RÚV.