Sigríður Olgeirsdóttir, stjórnarmaður í Högum, keypti í vikunni hlutabréf í smásölufyrirtækinu fyrir 2,2 milljónir króna, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar. Alls keypti hún 35.000 hluti í Högum, móðurfélagi Bónuss, Hagkaups og Olís, á genginu 63,5 krónur á hlut.

Sigríður, sem var kjörin í stjórn Haga í júní 2022, hefur verið stjórnandi í hugbúnaðar- og hátæknigeiranum og Íslandsbanka. Hún var sviðsstjóri þjónustu hjá Völku árin 2019-2021. Þar áður var hún framkvæmdastjóri rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka árin 2010-2019.

Hún hefur einnig gegnt stöðu framkvæmdastjóra Ax hugbúnaðarhúss, forstjóra Humac ásamt því að stofna og byggja upp Tæknival í Danmörku.