Sigur­björn Eiríks­son, fram­kvæmda­stjóri Inn­viða Sýnar, keypti 45.460 hluti í fjölmiðla- og fjar­skipta­félaginu í dag á genginu 22 krónur á hlut. Kaup­verðið er því ríf­lega ein milljón króna.

Hluta­bréfa­verð Sýnar hefur lækkað um 7% í við­skiptum dagsins og stendur gengið í 21,6 krónum.

Félagið birti árs­hluta­upp­gjör eftir lokun markaða í gær sem sýndi tap upp á 357 milljónir í fyrra í saman­burði við 2,1 milljarðs hagnað á árinu á undan.

Í upp­gjörinu segir þó að framtíðar­horfur félagsins séu jákvæðar og mun Sýn leggja áherslu á innri vöxt á síðari hluta ársins 2025, sér­stak­lega með til­komu enska boltans.

Rekstrar­spá stjórn­enda gerir ráð fyrir að hagnaður fyrir fjár­magns­liði og skatta (EBIT) verði á bilinu 800-1.200 milljónir króna á árinu 2025.

Þessi spá tekur ekki til­lit til mögu­legrar lækkunar kostnaðar við rekstur fjar­skipta­inn­viða í gegnum víðtækara sam­starf á vett­vangi Senda­félagsins.

Jafn­framt er gert ráð fyrir að við­skipta­vinum fjölgi um­tals­vert á árinu, þar sem þeir kjósa að njóta betri þjónustu og sam­keppnis­hæfra lausna í sjón­varpsá­skriftum, farsímaþjónustu og heima­tengingum.

„Ég hef fulla trú á að við náum að auka rekstrar­hagnað af kjarna­starf­semi undan­farinna ára veru­lega. Við verðum þung í fjár­festingum á árinu vegna ein­skiptis kostnaðar við inn­leiðingu á nýrri stefnu, breyttri ásýnd félagsins og Enski boltinn er að koma heim. Stígandi verður í tekjum og arð­semi eftir ‏ því sem líður á árið og gert er ráð fyrir að síðari hluti ársins verði um­tals­vert betri en sá fyrri. Enski boltinn, vinsælasta sjón­varps­efni landsins, er á leið aftur til okkar og leiknir verða 380 leikir á komandi leiktíð,” segir Herdís Dröfn Fjeldsted forstjóri Sýnar í uppgjöri.