Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari hefur ákært þrjá í einu umfangsmesta skattsvikamáli Íslands en málið hefur verið kennt við Sigurð Gísla Björnsson og fyrirtæki hans Sæmar-Sjávarafurðir í fjölmiðlum.
Þetta kemur fram í frétt RÚV en rannsókn á málinu hófst í desember 2017 þegar gerð var húsleit á heimili Sigurðar Gísla og hjá Sæmarki í Hafnarfirði.
Rannsókn málsins lauk í sumar og hafa tveir dómar nú þegar fallið í málinu. Í einum dómi var kona dæmd til að greiða 178 milljónir í sekt vegna launagreiðslna frá aflandsfélaginu Sæmark og í hinum dómnum var útgerðarmanni gert að greiða sekt upp á 35 milljónir.
Sigurður Gísli er ákærður fyrir að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum Sæmark á árunum 2010 til 2016. Samkvæmt embættinu voru rekstartekjur félagsins vanframtaldar vegna rangfærðra afslátta í tengslum við vörusölu tveggja fyrirtækja.
Í frétt RÚV segir að hinir mennirnir tveir eru ákærðir fyrir að aðstoða Sigurð Gísla við brot sín með útgáfu rangra og tilhæfulausra reikninga í rekstri félaga sinna.
Í einu málinu nemur upphæðin tæpum 2,5 milljónum en upphæðin er mun hærri í máli hins eða tæpar 232 milljónir.
Vanframtalinn skattstofn um tveir milljarðar
Áætla má að samanlagður meintur vanframtalinn skattstofn Sigurðar Gísla Björnssonar og Sæmarks-Sjávarafurða ehf., félags hans, nemi tæpum tveimur milljörðum króna.
Kröfu fyrrverandi eiginkonu hans um afléttingu á kyrrsettum eignum hennar, vegna áætlaðrar skattkröfu á hendur Sigurði vegna tekjuáranna 2011-12, var hafnað í Landsrétti árið 2019.
Nafn Sigurðar Gísla var meðal þeirra sem finna mátti í Panamaskjölunum svokölluðu. Ríkisskattstjóri (RSK) hafði keypt umrædd gögn á árinu 2015 og hafið skoðun á því sem þar kom fram. Þar sem ósamræmi hafi verið í svörum hans til RSK, að mati embættisins, hafi málið verið sent skattrannsóknarstjóra ríkisins (SRS) til þóknanlegrar meðferðar í október 2016.
Eignir hans og innistæður á reikningum voru kyrrsettar í árslok 2017. Meðal hins kyrrsetta var rúmlega 9 milljón krónur á bankareikningi hans, fasteign í Garðabæ, önnur í Grímnes- og Grafningshreppi svo og allt hlutafé í Sæmarki. Í endurriti úr gerðabók sýslumanns kemur fram að þegar kyrrsetningargerðin fór fram hafi Sigurður Gísli verið á fundi hjá SRS.
Kyrrsetningin var kærð til dómstóla en í úrskurðum þeirra kemur fram að talið sé að tekjur Sigurðar Gísla, tekjuárin 2011, 2013 og 2016, hafi verið vantaldar um tæplega 237 milljónir króna. Verðmæti hinna kyrrsettu eigna, að undanskildum eignarhlutanum í Sæmarki, var um 172 milljónir.
Handbært fé Sæmarks samkvæmt ársreikningi rekstrarársins 2016 nam 520 milljónum króna og taldi Sigurður því að verðmæti kyrrsetningarinnar væri of mikið miðað við mögulega kröfu skattayfirvalda.