Ólafur Þór Hauks­son héraðs­sak­sóknari hefur á­kært þrjá í einu um­fangs­mesta skatt­svika­máli Ís­lands en málið hefur verið kennt við Sigurð Gísla Björns­son og fyrir­tæki hans Sæmar-Sjávar­af­urðir í fjöl­miðlum.

Þetta kemur fram í frétt RÚV en rann­sókn á málinu hófst í desember 2017 þegar gerð var hús­leit á heimili Sigurðar Gísla og hjá Sæ­marki í Hafnar­firði.

Rann­sókn málsins lauk í sumar og hafa tveir dómar nú þegar fallið í málinu. Í einum dómi var kona dæmd til að greiða 178 milljónir í sekt vegna launa­greiðslna frá aflands­fé­laginu Sæ­mark og í hinum dómnum var út­gerðar­manni gert að greiða sekt upp á 35 milljónir.

Sigurður Gísli er á­kærður fyrir að hafa staðið skil á efnis­lega röngum skatt­fram­tölum Sæ­mark á árunum 2010 til 2016. Sam­kvæmt em­bættinu voru rekstar­tekjur fé­lagsins van­fram­taldar vegna rang­færðra af­slátta í tengslum við vöru­sölu tveggja fyrir­tækja.

Í frétt RÚV segir að hinir mennirnir tveir eru ákærðir fyrir að aðstoða Sigurð Gísla við brot sín með útgáfu rangra og tilhæfulausra reikninga í rekstri félaga sinna.

Í einu málinu nemur upphæðin tæpum 2,5 milljónum en upphæðin er mun hærri í máli hins eða tæpar 232 milljónir.

Vanframtalinn skattstofn um tveir milljarðar

Á­ætla má að saman­lagður meintur van­fram­talinn skatt­stofn Sigurðar Gísla Björns­sonar og Sæ­marks-Sjávar­af­urða ehf., fé­lags hans, nemi tæpum tveimur milljörðum króna.

Kröfu fyrr­verandi eigin­konu hans um af­léttingu á kyrr­settum eignum hennar, vegna á­ætlaðrar skatt­kröfu á hendur Sigurði vegna tekju­áranna 2011-12, var hafnað í Lands­rétti árið 2019.

Nafn Sigurðar Gísla var meðal þeirra sem finna mátti í Pana­ma­skjölunum svo­kölluðu. Ríkis­skatt­stjóri (RSK) hafði keypt um­rædd gögn á árinu 2015 og hafið skoðun á því sem þar kom fram. Þar sem ó­sam­ræmi hafi verið í svörum hans til RSK, að mati em­bættisins, hafi málið verið sent skatt­rann­sóknar­stjóra ríkisins (SRS) til þóknan­legrar með­ferðar í októ­ber 2016.

Eignir hans og inni­stæður á reikningum voru kyrr­settar í árs­lok 2017. Meðal hins kyrr­setta var rúm­lega 9 milljón krónur á banka­reikningi hans, fast­eign í Garða­bæ, önnur í Grím­nes- og Grafnings­hreppi svo og allt hluta­fé í Sæ­marki. Í endur­riti úr gerða­bók sýslu­manns kemur fram að þegar kyrr­setningar­gerðin fór fram hafi Sigurður Gísli verið á fundi hjá SRS.

Kyrr­setningin var kærð til dóm­stóla en í úr­skurðum þeirra kemur fram að talið sé að tekjur Sigurðar Gísla, tekju­árin 2011, 2013 og 2016, hafi verið van­taldar um tæp­lega 237 milljónir króna. Verð­mæti hinna kyrr­settu eigna, að undan­skildum eignar­hlutanum í Sæ­marki, var um 172 milljónir.

Hand­bært fé Sæ­marks sam­kvæmt árs­reikningi rekstrar­ársins 2016 nam 520 milljónum króna og taldi Sigurður því að verð­mæti kyrr­setningarinnar væri of mikið miðað við mögu­lega kröfu skatta­yfir­valda.