Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur sent Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu erindi vegna netsölu áfengis til neytenda hér á landi.
Í erindinu minnir Sigurður lögregluna á einokunarstefnu stjórnvalda og að ÁTVR eigi samkvæmt áfengislögum einkarétt á að selja áfengi í smásölu og að það séu viðurlög við brotum á því.
„Undanfarið hefur netsala áfengis til neytenda færst nokkuð í aukana hér á landi, undir því fororði að í þeim viðskiptum felist innflutningur af hálfu neytenda. Þessi þróun hefur orðið tilefni til umræðu í samfélaginu, m.a. í tengslum við markmið laga um að stýra aðgengi að áfengi, draga úr skaðlegum áhrifum áfengisneyslu og vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis,” segir í erindi Sigurðar.
Samflokksmaður Sigurðar, Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, sendi fjármálaráðuneytinu bréf um málið þann 5. júní þar sem bent er á að með úrskurðum dags. 18. mars 2022 hafi Héraðsdómur Reykjavíkur vísað frá málum sem ÁTVR höfðaði gegn tveimur seljendum áfengis.
Þannig hafi í reynd ekki reynt efnislega fyrir dómstólum á hvort starfsemi ýmissa netverslana með áfengi á Íslandi sé lögmæt.
„Starfsemi netverslana með áfengi hefur gefið ráðuneytinu tilefni til að yfirfara lagaumhverfi smásölu með áfengi og nýlega óskaði ráðuneytið eftir meðfylgjandi lögfræðiáliti vegna þessa. Í álitinu er gerð grein fyrir gildandi lagaumhverfi og helstu lagaákvæðum sem tengjast smásölu, sem eru á forræði fjármála- og efnahagsráðherra og dómsmálaráðherra, auk ákvæða EES-samningsins,” segir í erindi Sigurðar.
Í bréfi Sigurðar segir að samkvæmt álitinu kunni smásala áfengis í gegnum netverslanir, sem fram fer hér á landi á vegum annarra aðila en ÁTVR, í einhverjum tilvikum að vera ólögmæt.
Meta þurfi þó í hverju máli hvort sala í gegnum netverslun feli í sér lögmætan innflutning áfengis erlendis frá eða ólögmæta smásölu.
„Ráðuneytinu er kunnugt um að ÁTVR hafi kært brot á smásölu áfengis til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í júní 2020. Hins vegar virðist ekki liggja fyrir hvort starfsemi netverslana með áfengi hafi verið tekin til skoðunar í kjölfar þeirrar kæru, m.a. með tilliti til þess hvort slíkar verslanir hafi með höndum innflutning til neytenda eða hvort staðfesta viðkomandi fyrirtækja erlendis sé til málamynda. Umrædd starfsemi netverslana kann að fela í sér brot á lögum. Í ljósi þess og með vísan til áhrifa sem hún kann að hafa á lýðheilsu vekur ráðuneytið athygli Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á framangreindum álitaefnum,“ segir að lokum í bréfi Sigurðar.