Lyfjafyrirtækin Mallinckrodt og Endo hafa náð samkomulagi um samruna. Sigurður Ólafsson, sem hefur gegnt stöðu forstjóra Mallinckrodt síðan í júní 2022, verður forstjóri og mun sitja í stjórn sameinaðs félags sem stefnir á skráningu í NYSE-kauphöllina í New York.
Sigurður segir í tilkynningu að starfsemi félaganna falli einkar vel saman. Samruninn muni skapa stærra félag með fleiri stoðir sem hafi skalann og fjárhagslega burði til að ná því besta úr úr báðum félögum.
Heildarvirði (e. enterprise value) sameinaðs félags er metið á 6,7 milljarða dollara, eða ríflega 900 milljarða króna. Áætlað er að samanlögð velta félaganna verði um 3,6 milljarðar dollarar í ár, eða u 485 milljarðar króna.
Samkomulagið felur í sér að hluthafar Endo fá 80 milljónir dala, eða um 10,8 milljarða króna, og 49,9% eignarhlut í sameinuðu félagi. Hluthafar Mallinckrodt munu því eiga ráðandi hlut í félaginu. Gert er ráð fyrir að viðskiptin gangi í gegn á seinni árshelmingi 2025.
Sameinuð frumlyfjastarfemi félaganna (e. branded drugs businesses) mun innihalda testósterón sprautulyf Endo, Aveed, auk Acthar Gel Mallinckrodt og nýrnaveikislyfið Terlivaz. Fyrirtækin selja einnig samheitalyf, þar á meðal ópíóða.
Fyrirtækin selja einnig samheitalyf, þar á meðal ópíóða. Til stendur að setja sameinaða samheitalyfjastarfsemi félaganna ásamt stungulyfjaeiningu Endo inn í aðskilið fyrirtæki á síðari tímapunkti.
Í umfjöllun Reuters segir að lyfjafyrirtækin hafi bæði gengið í gegnum greiðslustöðvun og málaferli vegna ópíóðasölu. Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur Mallinckrodt tvívegis á síðustu fimm árum árum farið í greiðsluskjól (e. Chapter 11 bankruptcy), síðast árið 2023. Það ferli endaði með því að kröfuhafar tóku við eignarhaldi félagsins.
Sigurður á að baki áratuga stjórnunarferil í lyfjageiranum en hann starfaði lengst af hjá Actavis, m.a. sem forstjóri félagsins, og í kjölfarið hjá ísraelska lyfjarisanum Teva sem náði samkomulagi um kaup á Actavis árið 2015. Þar stýrði hann samheitalyfjadeild félagsins sem var sú stærsta í heimi með um 15.000 starfsmenn.
Áður en hann tók við Mallinckrodt var Sigurður forstjóri breska lyfjafyrirtækisins Hikma á árunum 2018-2022.