Behold Ventures, sérhæfður norrænn vísissjóður sem fjárfestir í evrópskum tölvuleikjafyrirtækum á fyrstu stigum, tilkynnti í dag að fyrsta sjóði félagsins hafi verið lokað.
Alls námu áskriftir 7 milljörðum íslenskra króna, eða um 700 milljónir umfram takmark sjóðsins.
Meðal stofnenda sjóðsins er Sigurlína Ingvarsdóttir, reynds stjórnanda í tölvuleikjaiðnaðinum sem stýrði m.a. framleiðslu Star Wars Battlefront og stýrði strategíu fyrir EA Sports FIFA árin 2017 og 2018.
Þá starfar Brynjólfur Erlingsson, sem hefur gegnt stjórnunarstörfum í tölvuleikjaiðnaðinum undanfarin fimmtán ár, einnig hjá vísisjóðnum.
Meðal fjárfesta á bak við sjóðinn er Evrópski fjárfestingarsjóðurinn (EIF) og tölvuleikjaframleiðendurnir Krafton og NetEase.
Behold Ventures, sem var stofnaður árið 2021, hefur þegar fjárfest fyrir 2,5 milljarða króna í 18 fyrirtækjum, þar af í þremur íslenskum; Porcelain Fortress, Vitar Games og Esports Coaching Academy.
Sjóðurinn segist fjárfesta bæði í fyrirtækjum sem búa til tölvuleiki og fyrirtækjum sem búa til tækni og þjónustu fyrir tölvuleikjageirann.
Fjármögnun á næsta sjóði hefjist í ár
Behold Ventures var stofnaður árið 2021 af Karl Magnus Troedsson, Sigurlínu Ingvarsdóttur, og Magnus Kenneby.
Sjóðurinn segist þegar farinn að leggja grunn að sínum öðrum sjóði. Áformað er að fjármögnun á honum hefjist síðar á þessum ári.
„Það að loka sjóði sem þessum á þessum óvissutímum í alþjóðlegu fjármögnunarumhverfi gerir okkur gríðarlega stolt,“ segir Karl Magnus Troedsson, meðstofnandi og framkvæmdastjóri Behold Ventures, í tilkynningu.
„Það endurspeglar mikla trú á sérhæfðri þekkingu okkar, tengslaneti og getu okkar til að finna næstu kynslóð leikjafyrirtækja.”