Úrvalsvísitalan hækkaði lítillega í 3,5 milljarða króna veltu á aðalmarkaði kauphallarinnar í dag. Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka sem hækkaði um 1,6% og stendur gengi bankans nú í 159 krónum á hlut. Arion tilkynnti um allt að 2 milljarða króna endurkaupaáætlun frá 14. desember til 15. mars næstkomandi.
Hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar hækkaði um 2,5% í 330 milljóna viðskiptum dag og stendur nú í 122,5 krónum á hlut. Dagslokagengi útgerðarfélagsins hefur ekki verið hærra síðan í september. Síldarvinnslan greindi í gær frá því að Beitir NK hefði veitt fyrstu loðnuna austan við Kolbeinseyjarhrygg.
Auk Síldarvinnslunnar og Arion hækkuðu hlutabréf Sýnar, Eimskips, Sjóvá og VÍS um meira en 1,5% í dag.
Hlutabréf Marels féllu um 2,3% í verði í nærri 400 milljóna viðskiptum. Gengi Marels stendur nú í 512 krónum á hlut.