Síldarvinnslan (SVN) hagnaðist um 75,6 milljónir dala eftir skatta árið 2022, eða sem nemur 10,2 milljörðum króna, samanborið við 87,4 milljóna dala hagnað árið 2021. Minni hagnað eftir skatta má að stærstum hluta rekja til 23,6 milljóna dala hagnaðar af afhendingu SVN eignafélags til hluthafa árið 2021.

Stjórn útgerðarfélagsins leggur til 3,4 milljarða króna arðgreiðslu vegna síðasta rekstrarárs, að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi.

Rekstrartekjur Síldarvinnslunnar jukust um 30% á milli ára og námu 310 milljónum dala eða 42,0 milljörðum króna. Félagið segir tekjuaukningu skýrast fyrst of fremst af aukinni loðnuveiði og eins hafi verð á nánast öllum afurðum hækkað á milli ára.

Rekstrargjöld jukust um 34,7% og námu 205 milljónum dala eða 27,8 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður SVN fyrir afskriftir (EBITDA) jókst því um 23,6% og nam 14,2 milljörðum.

„Árið 2022 er besta rekstrarár í sögu Síldarvinnslunnar hf. Árið einkenndist af góðum gangi í veiðum og vinnslu. Markaðir voru sterkir fyrir afurðir félagsins þrátt fyrir að mikil óvissa og erfiðleikar hafi dunið á okkur í upphafi árs þegar innrás Rússlands í Úkraínu hófst,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri SVN, í afkomutilkynningu.

„Fyrsta verkefni ársins var stærsta loðnuvertíð frá árinu 2003 og þrátt fyrir slæm veðurskilyrði og erfiðar aðstæður til veiða þá tókst engu að síður að spila ágætlega úr vertíðinni og framleiða afurðir fyrir mikil verðmæti.“

Sjávarútvegsfyrirtæki þurfi sterkan efnahag

Síldarvinnslan keypti 34% hlut í norska laxeldisfyrirtækinu Arctic Fish Holding fyrir tæplega 15 milljarða króna síðasta sumar. Þá gekk SVN frá 31 milljarðs króna kaupum á útgerðarfélaginu Vísi í Grindavík í lok síðasta árs og hefur félagið verið hluti af samstæðunni frá 1. desember 2022.

„Með þessum tveimur fjárfestingum hefur efnahagur Síldarvinnslunnar stækkað enn frekar og er það okkar trú að sjávarútvegsfyrirtæki þurfi að hafa sterkan efnahag til að geta tekist á við þær sveiflur sem einkennt geta íslenskan sjávarútveg,“ segir Gunnþór.

Bókfært verð eigna Síldarvinnslunnar jókst um 67% á milli ára og nam 1.060 milljónum dala, eða um 150,5 milljörðum króna, í árslok 2022. Eigið fé var um 585 milljónir dala eða 83 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var því 55% í lok ársins.