Síldarvinnslan (SVN) hagnaðist um 16,6 milljónir dala á þriðja ársfjórðungi, eða sem nemur 2,3 milljörðum króna, samanborið við 17,3 milljóna dala hagnað á sama tímabili í fyrra. Útgerðarfélagið birti uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.
Tekjur útgerðarfélagsins jukust um 10% á milli ára og námu 79,3 milljónum dala eða 11,1 milljarði króna á gengi dagsins. Rekstrargjöld jukust um 13,3% og námu 51 milljón dala eða 7,2 milljörðum króna.
Samkeppniseftirlitið heimilaði 31 milljarðs króna kaup Síldarvinnslunnar á Vísi í Grindavík fyrr í mánuðinum. Í uppgjörskynningu SVN segir að stefnt sé að því að Vísir verði orðinn hluti af samstæðunni 1. desember næstkomandi. Stærsta verkefni SVN framundan sé að samþætta rekstur félaganna.
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar:
„Veiðar og vinnsla á makríl og norsk - íslensku síldinni hafa gengið vel í ársfjórðungnum. Við erum að sjá samdrátt í bolfiskafla sem rekja má til kvótasamdráttar. Uppsjávarskip okkar voru í veiðisamstarfi sem kom sér vel þegar langt var að sækja. Erum að sjá aukningu á makríl til mjöl- og lýsisvinnslu sem helgast af gæðum hráefnisins. Mun hærra hlutfall síldar fer til mjöl- og lýsisvinnslu vegna markaðsaðstæðna.
Nú stendur yfir vinna starfshópa sjávarútvegsráðherra þar sem fjallað er um flest í umhverfi greinarinnar og bindum við vonir við að sú vinna skili metnaðarfullri stefnu til eflingar íslensks sjávarútvegs til framtíðar.
Nú hefur samkeppniseftirlitið samþykkt kaup okkar á Vísi hf. og eru þá öll skilyrði kaupanna uppfyllt. Vísir verður hluti af samstæðu Síldarvinnslunnar hf. frá og með 1. desember nk. Þar bíður okkar áhugavert og krefjandi verkefni við að samþætta starfsemi félaganna á sviði bolfiskveiða og -vinnslu.
Það eru ýmsar áskoranir framundan en félagið er með sterkan efnahag og öflugt starfsfólk til að takast á við þær. Kjarasamningar eru lausir sem er vont fyrir alla aðila, bæði starfsfólk og fyrirtækin. Stríðið í Úkraínu hefur breytt viðskiptum inn á Austur Evrópu. Í dag er nánast eingöngu verið að afhenda vörur gegn greiðslu auk þess sem flutningar eru erfiðir og frystigeymslupláss nánast uppurið.
Fjármagnsumhverfið er að breytast, aðgengi að fjármagni er þyngra og vaxtakostnaður er að aukast og spá markaðsaðilar að það geti varað í einhvern tíma.
Orkuskortur í Evrópu mun breyta högum fólks og neysluvenjur geta tekið mið af því sem mun geta valdið sveiflum á mörkuðum.
Þrátt fyrir ofangreindar áskoranir lítum við björtum augum til komandi loðnuvertiðar, auk þess sem 80% aukning á ráðgjöf í kolmunna kemur sér vel og mun jafna út sveifluna á loðnunni að einhverju leyti.“