Síldarvinnslan (SVN) hagnaðist um 29,5 milljónir dala eftir skatta, eða sem nemur 4,2 milljörðum króna, á fyrsta ársfjórðungi. Til samanburðar skilaði útgerðarfélagið 27,5 milljónum dala hagnaði á fyrsta fjórðungi 2022, eða sem þá 3,5 milljörðum króna, en Vísir var þó ekki hluti af samstæðunni á þeim tíma. SVN birti uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.

Tekjur Síldarvinnslunnar jukust um 30,7% á milli ára og námu 131,5 milljónum dala, eða um 18,7 milljörðum króna, á fyrstu þremur mánuðum ársins. Um 27,4 af 30,9 milljóna dala tekjuaukningunni má rekja til Vísis sem varð formlega hluti af samstæðunni 1. desember síðastliðinn.

„Við erum að skila góðum rekstri á fjórðungnum, enn og aftur kom loðnan okkur í opna skjöldu með sveiflum í ráðgjöf, þar sem erfitt var að áætla nýtingu hennar. Bolfiskveiðar og vinnsla eru mun umfangsmeiri en áður með tilkomu Vísis í samstæðuna og gekk vel þar á fjórðungnum,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri SVN, í afkomutilkynningu.

„Það eru vissulega blikur á lofti í efnahagsmálum á mörgum að okkar helstu markaðssvæðum, sem skapar þrýsting á eftirspurn og verð. Vextir í heiminum eru hækkandi. Ljóst er að við erum að sjá kostnað af lánum félagsins hækka. Ennfremur er stríðið í Úkráínu stöðug ógn sem ómögulegt er að spá fyrir um hvert mun leiða.“

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) jókst um 21,8% á milli ára og nam 39,6 milljónum dala. EBITDA sem hlutfall af rekstrartekjum var 30,1% samanborið við 32,3% á fyrsta fjórðungi 2022. Hreinar fjármunatekjur drógust verulega saman og námu tæplega 400 þúsund dala samanborið við 4,3 milljónir dala á sama tímabili í fyrra.

Eignir samstæðunnar námu 151,2 milljörðum króna í lok mars, skuldir 68,1 milljörðum og eigið fé 83,1 milljörðum. Eiginfjárhlutfallið var því um 55%.