Síldarvinnslan hf., sem er eigandi 34,2% hlutar í Arctic Fish Holding AS, hyggst taka þátt í 35 milljóna evra hlutafjáraukningu laxeldisfyrirtækisins, eða sem nemur 5 milljörðum íslenskra króna.
Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að hlutur Síldarvinnslunnar í hlutafjáraukningunni verði um 40% eða samtals 14 milljónir evra. Það samsvarar um 2 milljörðum króna.
Auk Síldarvinnslunnar hefur norska fiskeldisfyrirtækið Mowi, stærsti hluthafi Arctic Fish, gefið vilyrði fyrir að skrá sig fyrir hlutum í fjármögnuninni í samræmi við eignarhlutfall sitt.
Síldarvinnslan keypti 34,2% hlut í Arctic Fish fyrir tæplega 15 milljarða króna í júní 2022. Við það tilefni sagði Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar að félagið telji mikil tækifæri til staðar í laxeldi.
Mowi, sem er stærsta fiskeldisfyrirtæki heims, varð nokkrum mánuðum síðar stærsti hluthafi Arctic Fish með kaupum á 51,3% hlut í laxeldisfyrirtækinu fyrir 26 milljarða íslenskra króna.
Arctic Fish segir í tilkynningu að markmiðið með hlutafjáraukningunni sé að styrkja efnahagsreikning og eiginfjárstöðu félagsins til að tryggja að félagið uppfylli fjárhagsleg skilyrði lánssamninga sinna. Hlutafjárhækkunin er meðal annars háð samþykki hluthafafundar Arctic Fish.
Fyrirhuguð hlutafjárhækkun nemur samtals 13.128.300 hlutum og miðast verð við gengi hluta í félaginu við lok viðskiptadags á Euronext vaxtamarkaðinum í Noregi í gær, 19. ágúst, sem var 31,80 norskar krónur.
Arctic Fish er laxeldisfyrirtæki á Vestfjörðum. Félagið hefur 29.800 tonna leyfi til framleiðslu á 10 eldisstaðsetningum í fimm fjörðum, þ.e. Patreksfirði, Tálknafirði, Arnarfirði, Dýrafirði og Ísafjarðardjúpi. Seiðaeldi félagsins er í Tálknafirði, fóðurmiðstöð á Þingeyri, skrifstofur á Ísafirði og hátæknilaxavinnsla í Bolungarvík.