Síldarvinnslan hefur sett frekari fjárfestingar á ís og munu stjórnendur rýna allan rekstur með það í huga að finna út hvar megi spara og gera betur, að því er kemur fram í uppgjörstilkynningu útgerðarfélagsins.

„Yfirlýsingar ráðamanna um að tvöföldun veiðigjalda hafi engin áhrif opinbera í versta falli hversu ótengdir þeir eru gangverki atvinnulífsins,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar.

„Sjávarútvegur hefur fjárfest mikið á undanförnum árum og hafa fjárfestingarnar að miklu leyti verið fjármagnaðar með eigin fé, þ.e. félögin hafa nýtt stóran hluta af hagnaði sínum til að endurnýja skipastól og vinnslutækni svo samkeppnishæfni haldist á mörkuðum. Ef ríkið tekur 1.600 milljónir króna í viðbót af hagnaði félagsins þá einfaldlega dregst getan til fjárfestinga og framþróunar saman til samræmis við það.“

Stjórnvöld forðist að ræða raunveruleg áhrif

Gunnþór segir að umræðan um áform ríkisstjórnarinnar um ríflega tvöföldun veiðigjalda hafi því miður að mestu snúist um form og minna um innihald. Stjórnvöld hafi forðast að ræða raunverulegu áhrif sem frumvarpið mun hafa á sjávarútveginn.

Hann vísar í minnisblað sem Síldarvinnslan birti á dögunum þar sem félagið gerði grein fyrir áhrifum frumvarpsins á Síldarvinnsluna.

„Niðurstaðan er skýr: Frumvarpið vinnur gegn samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs.“

Gunnþór segir að auk þess sem ofangreint bitni á fyrirtækinu sjálfu, sé ljóst að í Fjarðabyggð og nærumhverfi félagsins, muni þetta bitna á verslun, þjónustu og verktakafyrirtækjum.

„Þannig má nefna að á síðustu þremur árum höfum við verslað við fyrirtæki í Fjarðabyggð fyrir 9,4 milljarða. Ljóst er að draga þarf saman seglin þegar ríkið mun taka 1.600 milljónir króna til viðbótar af væntum hagnaði félagsins árlega.“

Hagnaður á fyrsta fjórðungi dróst saman um 35% milli ára

Rekstrartekjur Síldarvinnslunnar á fyrsta ársfjórðungi jukust um 1,6% milli ára og námu 11,4 milljörðum króna. EBITDA nam 3,1 milljarði króna.

Hagnaður Síldarvinnslunnar á fyrsta ársfjórðungi nam 7,3 milljónum dala eða um 1,0 milljarði króna. Hagnaður félagsins dróst saman um 35% á milli ára.