Síminn hagnaðist um 449 milljónir króna eftir skatta á þriðja ársfjórðungi samanborið við 507 milljónir árið áður. Samdráttinn má rekja til hærri fjármagnsgjalda en rekstrarafkoma félagsins jókst milli ára. Síminn birti uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.

Tekjur Símans á fjórðungnum námu tæplega 6,8 milljörðum króna og jukust um 7% milli ára. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir matsbreytingar (EBITDA) jukust um 5,7% milli ára og námu 1,9 milljörðum.

Hrein fjármagnsgjöld meira en tvöfölduðust milli ára og námu 292 milljónum, samanborið við 126 milljónir á þriðja ársfjórðungi 2023.

„Afkoma þriðja ársfjórðungs var heilt yfir góð og niðurstöðurnar sýna vel seiglu og styrk félagsins. Við sáum heilbrigðan tekjuvöxt í helstu fjarskiptaþjónustum sem og sjónvarpsþjónustu, þar sem áskrifendum hefur haldið áfram að fjölga. Þá hafa fjárfestingar okkar í auglýsingamiðlum staðist þær væntingar sem gerðar voru við kaupin og haft verulega jákvæð áhrif á hlutdeild auglýsingatekna í rekstri félagsins,“ segir María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans.

160 milljónir vegna forstjóraskipta og breytts skipurits

Fram kemur að breytingar á skipuriti félagsins, sem kynntar voru í síðasta mánuði, fólu í sér talsverðan kostnað sem bættist við áfallinn kostnað vegna forstjóraskipta sem einnig var gjaldfærður í ársfjórðungnum. Alls voru 160 milljónir gjaldfærðar vegna þessara breytinga.

Síminn hefur unnið að því að endurskoða stefnumið félagsins og verða þau áform kynnt nánar á komandi mánuðum.

„Það liggur fyrir að félagið hyggst halda áfram að sækja fram og við munum leggja áherslu á að breikka tekjugrunn félagsins með því að þróa og bæta við vöruframboð okkar nýjum stafrænum þjónustum og lausnum sem falla vel að þörfum okkar viðskiptavina,“ segir María Björk.