Úrvalsvísitalan hækkaði lítillega í Kauphöllinni í dag, eða um 0,05%, en heildarvelta á markaðinum nam 3,9 milljörðum króna. Af 22 skráðum félögum á aðalmarkaði voru 15 græn eftir viðskipti dagsins en fjögur rauð.
Síminn heldur áfram að hríðfalla í verði í kjölfar neikvæðra fregna um sölu félagsins á Mílu til franska sjóðastýringafyrirtækisins Ardian. Gengi bréfa félagsins féll um 8% í dag í 300 milljóna viðskiptum. Hlutabréfaverð félagsins hefur fallið samtals um 14% í vikunni. Gengið stendur nú í 10,2 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra frá því í maí 2021.
Þá hækkaði hlutabréfaverð fasteignafélagsins Reita mest í dag eða um rúm 3% í 270 milljóna viðskiptum. Gengi félagsins stendur nú í 97,5 krónum á hlut og hefur hækkað um 4,3% síðastliðin mánuð. Origo, Nova og SKEL hækkuðu öll umfram tveimur prósentum í viðskiptum dagins.
Marel, verðmætasta fyrirtækið á markaði, lækkaði um 1,3% í 150 milljóna viðskiptum. Brim og Iceland Seafood lækkuðu einnig um rúmt eitt prósent í viðskiptum dagsins.
Mesta veltan var með bréf bankanna á markaði, Íslandsbanka og Arion. Viðskipti með bréf Íslandsbanka námu milljarði króna, en gengi bréfa félagsins hefur aldrei verið hærra en nú og stendur í 130,6 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Arion stendur í 179 krónum á hlut og hefur hækkað um 2% frá áramótum.