Dómur Hæstaréttar Íslands í dag er varðar sýningarrétt á enska boltanum mun hafa bein áhrif á afkomu Símans, en félagið mun gjaldfæra 400 milljóna króna sekt á fyrsta ársfjórðungi 2025.

Afkomuspá Símans lækkar í kjölfarið, þar sem áður birt EBITDA-spá fyrir árið 2025, sem var á bilinu 7,0 til 7,4 milljarðar króna, er nú lækkuð í 6,6 til 7,0 milljarða króna. EBIT-spá lækkar einnig, úr 3,6 til 4,0 milljörðum króna í 3,2 til 3,6 milljarða króna.

Hæstiréttur sneri við niðurstöðum bæði Héraðsdóms Reykjavíkur og Landsréttar og staðfesti ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá 2020 um að sekta Símann vegna brota á samkeppnislögum.

Jafnframt var úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála um lækkun sektarinnar felldur úr gildi.

Síminn telur dóminn veruleg vonbrigði, sérstaklega í ljósi þess að snúið er við bæði dómi Héraðsdóms og Landsréttar sem og að hluta úrskurði áfrýjunarnefndar.

Félagið á ekki lengur sýningarrétt á ensku úrvalsdeildinni frá og með næsta tímabili, en telur að dómurinn hafi fordæmisgefandi áhrif á hvernig slík réttindi megi selja í framtíðinni.