Hlutabréfaverð Símans lækkaði um 8,3% í 236 milljón króna viðskiptum. En í gær var tilkynnt um að franska sjóðstýringafyrirtækið Ardian væri ekki reiðubúið að ljúka kaupum á Mílu af Símanum á grundvelli óbreytts kaupsamnings vegna íþyngjandi samkeppnisskilyrða sem munu fylgja með viðskiptunum.
Sjá einnig: Adrian vill breyta kaupsamningi Mílu
Heildarvelta á markaðinum nam 2,1 milljarði króna en Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,3%. Af 22 skráðum félögum voru ellefu græn eftir viðskipti dagsins en fimm rauð.
Hlutabréfaverð Icelandair hækkaði mest í viðskiptum dagsins eða um 4,7% í 107 milljón króna viðskiptum en gengi bréfa félagsins hefur hækkað um 27,3% á síðastliðnum mánuði. Þá hækkaði hlutabréfaverð Origo næst mest í dag eða um 3,4% í 17 milljón króna viðskiptum.
Á First North markaði lækkaði hlutabréfaverð Alvotech um 3,5% í viðskiptum dagsins en það hefur lækkað um 26,8% á síðastliðnum mánuði en viðskipti með bréf félagsins hófust 23. júní síðastliðinn.