Síminn hefur tekið ákvörðun um að breyta skipuriti félagsins og taka þær breytingar gildi í dag. Breytingin felur í sér að tvö ný svið verða til og eitt svið, Sjálfbærni og menning, er lagt niður.

„Breytingarnar eru hluti af framtíðarsýn félagsins og endurspegla fyrst og fremst aukna áherslu á sölu, markaðssetningu og upplifun viðskiptavina,“ segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Síminn hefur tekið ákvörðun um að breyta skipuriti félagsins og taka þær breytingar gildi í dag. Breytingin felur í sér að tvö ný svið verða til og eitt svið, Sjálfbærni og menning, er lagt niður.

„Breytingarnar eru hluti af framtíðarsýn félagsins og endurspegla fyrst og fremst aukna áherslu á sölu, markaðssetningu og upplifun viðskiptavina,“ segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Sviðið Sjálfbærni og menning er lagt niður og munu sjálfbærnimál færast til fjármálasviðs en verða áfram unnin þvert á félagið. Við þessar breytingar mun Erla Ósk Ásgeirsdóttir, sem stýrði sviðinu, láta af störfum hjá Símanum. Henni er óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Síminn segir að flokkunarreglugerð ESB og reglugerð um sjálfbærniupplýsingagjöf kalli á stórauknar mælingar og upplýsingagjöf sem fjármálasvið mun leiða.

Auglýsingamiðlun er nýtt tekjusvið þar sem auglýsingalausnir Símans og dótturfélagsins Billboard munu saman þróa og festa í sessi auglýsingalausnir ásamt frekari nýsköpun þar sem gögn og gervigreind spila stórt hlutverk.

Vésteinn Gauti Hauksson er nýr framkvæmdastjóri Auglýsingamiðlunar en hann kemur til Símans frá Billboard.

Miðlar er nýtt svið þar sem sjónvarpsefni og markaðsmál sameinast undir stjórn Birkis Ágústssonar sem tekur sæti í framkvæmdastjórn. Sviðið mun stýra framleiðslu á innlendu sjónvarpsefni, innkaupum á erlendu sjónvarpsefni ásamt því að stýra ásýnd vörumerkis Símans.

„Nýtt svið mun styrkja enn frekar stærstu efnisveitu landsins, Sjónvarp Símans Premium og hefja markaðslega sókn Símans á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði ásamt því að efla sjónvarpsþjónustu Símans í heild sinni fram á við.“

„Þær breytingar sem við kynnum nú á skipuriti félagsins eru rökrétt framhald af þeirri þróun fyrirtækisins að leggja aukna áherslu á vöruþróun og þjónustuupplifun,“ segir María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans.

Vésteinn og Birkir í framkvæmdastjórn

Við þessar breytingar taka Vésteinn Gauti Hauksson og Birkir Ágústsson sæti í framkvæmdastjórn Símans.

Vésteinn Gauti Hauksson framkvæmdastjóri Auglýsingamiðlunar kemur til Símans frá Billboard þar sem hann hefur undanfarin átta ár starfað sem framkvæmdastjóri félagsins. Áður starfaði Vésteinn sem forstöðumaður auglýsingasölu og markaðsrannsókna hjá Símanum á árunum 2013 til 2016. Vésteinn hefur áratuga reynslu af auglýsingasölu og rekstri í heimi fjölmiðla.

Birkir Ágústsson framkvæmdastjóri Miðla hefur leitt innlenda dagskrárgerð hjá Símanum undanfarin ár við góðan orðstír, en starfaði áður sem markaðsstjóri Storytel á Íslandi. Áður var Birkir markaðssérfræðingur hjá Símanum og 365 miðlum þar sem hann leiddi markaðs- og kynningarstarf sjónvarps.

Vésteinn Gauti Hauksson og Birkir Ágústsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)