Síminn og bandaríski sjónvarpsframleiðandinn HBO hafa gert með sér víðtækan samstarfssamning sem tryggir Sjónvarpi Símans aðgang að því nýjasta úr smiðju HBO ásamt fjölda eldri titla.

Stöð 2 var áður með samning við HBO og var auglýst sem „heimili HBO“ á sínum tíma. Stöð 2 gerði fimm ára samning við HBO árið 2014.

Meðal þáttaraða úr smiðju HBO eru Game of Thrones, Sex and the City, Chernobyl, The Wire, Curb Your Enthusiasm, Band of Brothers og Mare of Easttown.

Þættirnir House of the Dragon, sem gerast í söguheimi Game of Thrones, munu birtast í dag í Sjónvarpi Símans Premium ásamt öllum átta þáttaröðunum af Game of Thrones. Þá verður efni HBO bætt við úrval Sjóvarpi Símas Premium jafnt og þétt á nýju ári.

„Við erum afskaplega ánægð að hafa náð samningum við HBO en hið frábæra efni þeirra fellur vel að efnisveitunni okkar Sjónvarpi Símans Premium. Hér er um að ræða gæðaefni fyrir kröfuharða áhorfendur sem mun festa okkur enn betur í sessi sem leiðandi efnisveitu á Íslandi enda höfum við nú samninga við alla bestu framleiðendur heims ásamt því að vera heimili ensku úrvalsdeildarinnar á Íslandi“ segir Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri Miðla hjá Símanum.