Síminn hagnaðist um 1.381 milljón króna árið 2024 samanborið við 1.346 milljónir árið 2023, að því er kemur fram í nýbirtu ársuppgjöri félagsins.
Stjórn Símans leggur til að greiddur verði arður að fjárhæð 500 milljónir króna á árinu 2025. Jafnframt verður óskað eftir áframhaldandi heimild til endurkaupa eigin bréfa fyrir allt að 10% af hlutafé.
Sölutekjur Símans jukust um 8,5% milli ára og námu 27,2 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) jókst um 16,2% milli ára og nam 7,1 milljarði króna.
Eignir Símans voru bókfærðar á 41,2 milljarða í árslok 2024. Eigið fé var 18,1 milljarður og eiginfjárhlutfall 44,0%.
María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans, segir félagið ánægt með afkomu fjórða ársfjórðungs, sem hafi verið sterkasti fjórðungur ársins. Tekjur Símans á fjórðungnum jukust um 11,6% milli ára og hagnaður félagins jókst ríflega fjórðung.
Stóraukin áhersla á vöru- og viðskiptaþróun – skoða ytri vöxt
Í fjárfestakynningu Símans segir að eftir áralangt tímabil sem einkenndist af eignasölu, einföldun og hagræðingu í rekstri, hafi félagið tekið skref til ytri vaxtar með kaupum á Billboard, Noona Iceland og lánasafni Valitor.
Síminn greindi frá því í lok janúar að samhliða uppfærðu skipuriti hefði tekið í gildi ný og uppfærð stefna sem marki framtíð Símans sem stafræns þjónustufyrirtækis. Þrjár tekjustoðir félagsins eru fjarskipti og tækni, stafræn miðlun og fjártækni
Í ofangreindri fjárfestakynningu, þar sem fjallað er um hina nýju stefnu, segist félagið ætla að leggja stóraukna áherslu á vöru - og viðskiptaþróun jafnt á einstaklingsmarkaði og fyrirtækjamarkaði.
Þá muni stjórnendur skoða frekari tækifæri til ytri vaxtar með hliðsjón af stefnu félagsins.
„Á sama tíma og við ætlum okkur að standa vörð um þann sterka grunnrekstur sem Síminn hefur verið þekktur fyrir, ætlum við að finna leiðir til að vaxa og þróast til framtíðar litið, bæði með innri og ytri vexti. Jafnframt viljum við tryggja framúrskarandi upplifun af vörum og þjónustu Símans og skapa stafrænt samfélag snjallra lausna fyrir fólk og fyrirtæki,“ segir María Björk í uppgjörstilkynningu félagsins.