Hluta­bréfa­verð Novo Nor­disk hefur lækkað um 60% frá hæsta punkti í fyrra, en sam­kvæmt nýrri greiningu Jyske Bank gæti það skapað ein­stakt tækifæri fyrir langtíma­fjár­festa. Bankinn metur stöðuna sem „gullið tækifæri til kaupa“.

Novo Nor­disk, sem varð leiðandi á markaði fyrir þyngdar­stjórnunar­lyf með inn­leiðingu Wegovy árið 2021, hefur síðan mátt þola vaxandi sam­keppni og vaxandi efa­semdir fjár­festa.

Sam­hliða hafa hluta­bréf fyrir­tækisins hríð­fallið og við­skipta­verðið lækkað um meira en helming.

„Við köllum þetta feita köttinn – fyrir­tæki sem hefur safnað miklum hagnaði en stendur nú frammi fyrir spurningu um hvort það geti enn aðlagast og sýnt fimi þegar sam­keppnin eykst. Við teljum að það geti það,“ segir Tommy Steg, fjár­festingar­sér­fræðingur hjá Jyske Bank.

Sam­kvæmt greiningu Jyske Bank er verðlagning á hluta­bréfum Novo Nor­disk í kringum 15-faldan áætlaðan hagnað, sem telst hóf­legt í saman­burði við væntan­legan vöxt í greininni.

Steg bendir á að markaðurinn virðist verð­leggja bréfið eins og aðeins einn sigur­vegari geti orðið í kapp­hlaupinu um markað fyrir þyngdar­tapa­lyf, en að það endur­spegli ekki raun­veru­leikann.

„Fjár­festar virðast halda Novo að tapi á þessari sam­keppni, sem við teljum ein­fald­lega ekki rétt,“ segir hann.

Þrátt fyrir erfið­leika og gagn­rýna um­ræðu hefur meiri­hluti stærstu greiningar­fyrirtækja sagt fjárfestum að kaupa í Novo Nordisk, sam­kvæmt gögnum frá Bloom­berg.

Jyske Bank er þar með í hópi þeirra sem líta á núverandi lækkun sem tækifæri frekar en viðvörun.