Bandarísku farveiturnar Uber og Lyft stefna á að bjóða upp á sjálfkeyrandi leigubíla á árinu og boða nýjungar í snjallsímaforritum sínum. Að því er kemur fram í frétt Wall Street Journal munu bílarnir meðal annars koma frá Waymo sem eru úr smiðju Alphabet, móðurfélags Google.

Bæði Uber og Lyft féllu frá áformum um að framleiða sína eigin sjálfkeyrandi bíla í heimsfaraldrinum, þrátt fyrir milljarða dala fjárfestingar.

Vinna farveiturnar nú að því að skaffa geymslurými og hleðsluinnviði fyrir bílana auk þess að ráða starfsfólk til að viðhalda bílunum. Fyrst um sinn mun þjónustan vera einskorðuð við Texas- og Georgíu-ríki en vonir standa til að hægt verði að útvíkka starfsemina.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 8. janúar 2025.