Ljóst er að sjálfkjörið verður í stjórn Nova á hluthafafundi félagsins sem fer fram á miðvikudaginn en framboðsfrestur rann út í dag.
Þrír af fimm sitjandi stjórnarmönnum Nova eru á vegum fjárfestingarfélagsins Pt. Capital, sem er stærsti einstaki hluthafi fjarskiptafélagsins með ríflega 11% hlut.
Stjórn Nova skipa í dag:
- Hugh Short, stjórnarformaður
- Hrund Rudólfsdóttir
- Jón Óttar Birgisson
- Tina Pidgeon
- Kevin Payne
Hugh Short, forstjóri Pt. Capital og stjórnarformaður Nova, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið á dögunum að fjárfestingarfélagið væri reiðubúið að gefa eftir sæti í stjórninni. Hann sagðist óviss hvort stjórnin myndi taka breytingum á fundinum í vikunni en félagið yrði í það minnsta með tilnefningarnefnd fyrir aðalfund næsta vor.
Auk stjórnarkjörs var tilgangur fundarins að uppfæra samþykktir félagsins svo þær samræmist betur skráðu félagi og setja á fót tilnefningarnefnd.
Eftirtalin gefa kost á sér til setu í tilnefningarnefnd:
- Eyþór Jónsson
- Jón Óttar Birgisson
- Thelma Kristín Kvaran