Bandaríska viðskiptaráðið (FTC) hefur sett upp nýja reglu sem mun auðvelda viðskiptavinum að hætta í áskrift og þvingar fyrirtæki til að gera uppsagnarferlið jafn auðvelt og skráningarferlið.
Reglurnar munu taka gildi eftir rúmlega sex mánuði en þá munu fyrirtæki þurfa að fá samþykki viðskiptavina áður en áskrift þeirra er endurnýjuð og breytist úr ókeypis prufuáskrift í greidda áskrift.
„Fyrirtæki láta fólk of oft þurfa að hoppa í gegnum endalausa hringi til að segja upp áskrift. Þessi regla mun binda enda á brellur og gildrur og mun spara Bandaríkjamönnum tíma og peninga. Það ætti enginn að vera fastur við að borga fyrir þjónustu sem hann vill ekki lengur,“ segir Lina Khan, formaður FTC.
Samkvæmt nýju reglunni verður fyrirtækjum einnig bannað að neyða viðskiptavini til að fara í gegnum gervigreindarspjallmenni eða umboðsmann til að segja upp áskrift sem var upphaflega skráð í gegnum app eða vefsíðu.
Bandaríska viðskiptaráðið höfðaði mál gegn tæknirisanum Amazon á síðasta ári vegna tengds máls. Yfirvöld sökuðu þá fyrirtækið um að hafa blekkt viðskiptavini til að skrá sig í Prime-áskrift sem endurnýjaðist sjálfkrafa og gerði fólki erfitt fyrir að reyna að segja upp.